Tuesday, March 13, 2007

Jafnrétti hvað?

Hið fyrirhugaða frumvarp um breytingar á jafnréttislögum er alveg magnað kvikindi. Ég hef sjaldan séð aðra eins vitleysu! Nokkur dæmi (auk minnar túlkunar, að sjálfsögðu):

"Ef ekki er farið að fyrirmælum Jafnréttisstofu um framlagningu gagna, sem máli skipta í viðeigandi máli, getur kærunefnd ákveðið að leggja dagsektir á þann sem fyrirmælin beinast að þar til úr hefur verið bætt."
Hvaða gögn skipta máli? Ég sé það hvergi nefnt. Ég efast um að lögreglan geti beitt dagsektum ef vitni neita að vitna eða ef grunur leikur á að einhver búi yfir sönnunargögnum en þau finnast hvergi né eru látin fram. Er það rangt hjá mér?

"Sinni fyrirtæki ekki tilmælum Jafnréttisstofu um skýrslugjöf hefur Jafnréttisstofa heimild til að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki þar til úr hefur verið bætt."
Hlutafélög skila skýrslum um afkomu sína. Einstaklingar skila skattskýrslum. Núna bætist við skýrsluflóðið: Fyrirtæki þurfa mánaðarlega að sannfæra yfirvöld um að engin lög séu brotin! Já, þú ert skattsvikari þar til þú getur sýnt fram á annað, en ekki skattgreiðandi þar til sýnt er fram á að þú sért skattsvikari. Gott það!

"Atvinnurekanda er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns, að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör."
Þar með hverfur launaleynd á Íslandi, en einnig heimild launþega til að þegja um laun sín ef "þriðji aðili" spyr þig um þau!

"Þar sem tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Við skipun skal þess gætt að hlutur hvors yns sé sem jafnastur og ekki minni en 40% þegar um fleiri en þrjá er að ræða."
Það er þá eins gott að ríkið eigi úr nægu starfsliði að velja ef allar hinna hundruði nefna ríkisins auk sveitarfélagsnefndanna eiga að fara telja fjölda tippa og píka áður en nefnd telst rétt skipuð!

"Í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skal greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu pplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því."
Ekki bara í opinberri hagskýrslugerð, nei líka í viðtals- og skoðanakönnunum! Ef Gallup segir að 30% Íslendinga drekki kók, þá mun það þurfa að fylgja sögunni að þar af séu 70% karlkyns og 30% kvenkyns. Frábært að vita!

"Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kyni."
Hvað telst nægjanlegt til að hafa leitt að einhverju líkur? Hugboð? Þrír launaseðlar? Mér þykir nú ansi mikið slakað á réttarkröfum réttarríkisins hérna. Sekur uns sakleysi er sannað?

"Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan tarfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við f gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu."
Eins slæmt og þetta ákvæði er efnislega, þá er líka alveg vitavonlaust að framfylgja því! Hvernig mælist kynjahlutfall innan heillar starfsgreinar? Með skoðanakönnun? Með hagtölum? Hvernig eru starfsgreinar greindar að? Er það e.t.v. augljóst? Nú eru fleiri konur en karlar að stunda nám í byggingar- og umhverfisverkfræði. Er þá heimilt að kljúfa þá tegund verkfræði frá öðrum til að hámarka kynjahlutfall kvenna innan meintrar starfsgreinar til að koma karlmanni að, eða þarf að hópa alla verkfræðinga saman og telja svo fjölda kynfæra, eða teljast tæknifræðingar með, og hvað með tölvunarfræðinga og tækniteiknara?

Þetta frumvarp er eitur og gengur mun lengra í átt að lögregluríki en nokkuð annað sem yfirleitt hefur hlotið einhverja athygli á Íslandi!

No comments: