Monday, May 22, 2006

Stóri kökudagurinn

Þungur dagur í Danmörku í dag. Skýjað, vottur af rigningu og allt frekar grátt útlits. Á móti kemur að hafsjór af sætabrauði er á boðstólnum í dag. Einn kom með köku því hann hafði farið í klippingu um helgina. Annar býður upp á köku seinnipartinn í dag því tannlæknirinn fann engar holur í morgun. Þriðja kakan er svo til að bæta upp fyrir lofaða köku á fundi fyrir 3 vikum í einum undirhópnum innan minnar deildar. Afsakanirnar til að borða sætabrauð verða sífellt léttvægari.

Dagar sem byrja á hressandi skilaboðum eru góðir dagar.

Sumir dagar skipuleggja sig bara sjálfir:
Samstarfsmaður: "Geir, ég er með örlítið verkefni hérna sem þarf að lesa yfir, vilt þú taka það?"
Geir: "Já, já, hvenær þarf ég að vera búinn?"
Samstarfsmaður: "Innan klukkutímans."

Þær geta verið skemmtilegar stjórnmálaumræðurnar hérna. Nú er enn ein "útjöfnunaraðgerðin" farin af stað í Danmörku. "Rík" sveitarfélög eiga að fá að blæða enn meira til "fátækra" sveitarfélaga en áður. Nokkrir samstarfsfélaganna búa í þessum "ríku" sveitarfélögum og hlakkar ekkert sérstaklega til að fá lofaðan aukaskatt ofan á það sem er lagt á fyrir. Þeir eru samt ekki á móti því af principp-ástæðum (að ríkið eigi ekki að standa í neinum jöfnunaraðgerðum), heldur af því þeir eru að verða fyrir blóðtökunni sjálfir. Ósköp skilur maður vel hversu auðvelt er að skattpína Danann þegar hann stendur á svona veikum hugmyndafræðilegum baráttugrundvelli gagnvart ríkisvaldinu.

Út að borða og drekka á kostnað vinnunnar á Tattúveruðu ekkjunni annað kvöld (staður sem bjórunnendur ættu að þekkja ágætlega). Ágætt að vera stundum meðlimur af ákveðinni gerð vinnumaurs. Þarf líklega að passa mig að fá mér ekki alltof marga bjóra alltof hratt því tveir af átta einstaklingum á svæðinu (ég meðtalinn) eru næsti og þarnæsti yfirmaður minn. Eða skiptir það máli?

No comments: