Monday, July 31, 2006

Já, ennþá netlaus heima

Eitt af því sem fylgir skráningum í eða úrsögnum úr einhverju í Danmörku er langur biðtími sem endar á því að maður hringir í viðeigandi fyrirtæki og fær að heyra að nú sé bara spurning um örfáa daga þar til málin græjast (hvort sem það er satt eða ekki fer svo eftir fyrirtækinu). Nú hefur þessi tími runnið upp hvað internet-veitu varðar. Á morgun verður hringt. Ég er ekki í stuði fyrir símabiðraðir í dag.

Helgin var hressandi og verður vonandi endurtekin að einhverju leyti sem fyrst (lesist: Vonandi hitti ég Ingimar fljótlega aftur yfir einum köldum eða tveimur).

Sunnudagsmynstur er að verða ansi rótgróið hjá mér: Vakna um kvöldmatarleytið, sofna ekki fyrr en seint, seint um nóttina, sofa örstutt, vera sæmilega sprækur í vinnunni framan af en vera orðinn eins og draugur seinnipartinn. Endurtaka svo leikinn á þriðjudaginn nema aðeins betur sofinn.

Pappírsvinnan er þungur baggi núna. Svo þungur að raunveruleg vinna er í raun kæfð niður. Hvorki meira né minna en þrír aðilar þurfa að lesa allar skýrslur í öllum útgáfum og á endanum (oftast eftir tvær útgáfur af hverju skjali) endanlega samþykkja skjalið. Þetta væri sosem allt í lagi ef öll þessi fyrirtæki væru ekki með FRAKKA að störfum í verkefninu.

Olíuiðnaðurinn og hið opinbera eiga margt sameiginlegt: Báðir setja sér sínar eigin vinnureglur og í báðum tilvikum fer skrifræðið mikið eftir því við hvern maður er að díla (mikið hjá Frökkum, minna hjá Bretum).

Þá sá ég það í fyrsta sinn síðan ég byrjaði á þessum vinnustað fyrir rúmlega ári síðan: Einhver annar en ég að nota MSN í vinnutíma!

Ég er 5600 dönskum krónum frá því að vera næstum því endanlega laus frá fyrrum búsetustað á Gammel Kongevej. Þetta mjakast.

Stressað kvenfólk á hjóli að tala í símann er sem betur fer sjaldgæft fyrirbæri.

Pólitísk tilvitnun dagsins til þeirra sem kenna mannkyninu um allar heimsins hörmungar: "Enn er spurt: Verður ekki gróðurhúsaáhrifum kennt um aukna tíðni fellibylja? Gray bendir á að fellibyljum hafi fjölgað á Atlantshafi undanfarin 10 ár eða svo, en á sama tíma hafi þeim fækkað annars staðar. Þetta komi ekki heim og saman við kenningarnar. Auk þess hafi fellibyljum fækkað snarlega á seinni hluta síðustu aldar, þegar útblástur gróðurhúsalofttegunda jókst." (#)

Netleysið er vel á minnst byrjað að valda því að ég er farinn að leika mér í tölvuleikjum. Ótrúlegt en satt veldur netLEYSI því að ég sóa MEIRI tíma en nokkru sinni áður.

Jæja, heim nú.

No comments: