Thursday, February 21, 2008

Taktlaus vika

Voðalega virðist ég hafa frá litlu að segja ef marka má bloggleysi mitt upp á síðkastið? Kannski hef ég frá ýmsu að segja en nenni ekki að halda utan um það skriflega? Það væri nú synd og skömm því þetta blogg er jú hálfgerð dagbók mín og um leið upplýsingaveita fyrir ykkur hin sem viljið gægjast inn í líf mitt.

Seinasta helgi var alveg ljómandi! Hún hófst raunar á fimmtudagskvöldinu þegar Stebbi kom og við náðum smá spjalli og sötri. Síðar um kvöldið lenti Fanney frænka ásamt kærasta og smá bjór og einum kebab seinna var haldið til Kristjaníu og þar var sötrað aðeins meira þar til félagar Stebba komu og ég, frænka og kærastinn héldum heim á leið. Föstudagskvöldið fór í alveg ljómandi vinnusötur þar sem ég skilaði mér frekar seint heim, svaf allan laugardaginn (til kl. 19 um kvöldið) og vaknaði nokkuð hress. Um kvöldið var svo sötur, tvær vinkonur frænku og Svenni slógust í för, Skarfurinn heimsóttur og einnig LA bar (vegna dansgólfsins með 'góðu' tónlistinni), símanúmeri bætt í símann, og drykkjuúthald alveg frambærilegt. Sunnudagurinn fór í að túristast með frænku og kærasta og kvöldið í ávallt-hressandi sötur með henni Ósk sem senn kveður Danmörku.

Að sjálfsögðu lét frænka svo kærastann vaska upp eftir helgina svo ég kom heim í íbúð hreinni en ég yfirgaf á mánudagsmorgni. Ljómandi það!

Vinnuvikan hefur vægast sagt verið taktlaus. Mætti ekki fyrr en um 10-11 leytið bæði í morgun og í gær því það var einfaldlega of gaman að hanga á MSN, kaupa vini sína á Facebook, lesa yfir greinina mína sem birtist í næsta vetrarhefti Þjóðmála og almennt bara hanga heim í náttbuxunum án háfleygra áætlana. Gleyma svo að stilla vekjaraklukkuna, eða stilla hana á tímann sem ég hafði í huga sem mætingartíma minn á meðan ég var að setja inn hringitímann.

Hasarinn í vinnunni er samt mikill. Tölvupóstar fljúga á milli mín, Acergy í París, CRP í Englandi, Marintek í Noregi og Dana í Danmörku. Hálfgerð "technical manager" stemming í gangi sem einhverjum Dana fannst ástæða til að hrósa mér fyrir vegna þess að ég var bara 1 klst að pressa Frakka til að lækka einhvern öryggisstuðul og þar með létta líf einnar hönnunardeildar okkar um helling. Já, ég er ekki svo galinn satt að segja!

Daði hefur pantað djamm annað kvöld og það er sjálfsagt að verða við því. Hverjir aðrir, hvar og hvenær og það allt reddast þegar líður á morgundaginn.

Fjólu óska ég góðs gengis á næstu vikum!

Eitthvað fleira? Nei. Yfir og út!

2 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir minn kæri.

Anonymous said...

Þó þú hafir kannski ekki mikið að segja á blogginu þá hefuru fullt að segja sem við viljum ekki að neinn annar viti...

thíhíhíh...

kosssss... þú veist hvar;)