Monday, December 10, 2007

Ísland annað kvöld

Þá er alveg að koma að því að ég fljúgi til Íslands til að eyða afgangi ársins þar (fram til 30. des.). Ég er farinn að hlakka til að fá smá frí frá Dönum sem voru vægast sagt kjaftaglaðir í dag. Hausinn á mér er líka frekar ringlaður eftir vægast sagt óreglulegan svefn um helgina (kl 7-18:30 fös-laug, kl 4-19:30 laug-sun, kl 2-6 sun-mán).

Ég ætla að sofa mikið á Íslandi. Mjög mikið. Og tala íslensku. Og hætta að tala um "réttindi" og "kröfur" og þeim mun meira um "vinnu" og "sjálfsbjargarviðleitni".

'Julefrokost' vinnunnar á föstudaginn var gríðarhressandi athöfn með gríðarmikilli áfengisneyslu. Mikið rosalega var ég skemmtilegur. Annað verður ekki sagt. Missti samt ekki af mér neinar flíkur, hvorki á skemmtuninni né í bænum eftir á. Þess hafa margir saknað síðan buxurnar ruku niður á mínu fyrsta vinnudjammi fyrir um 2 árum síðan. Lengi lifir í gömlum glæðum sögusagnaheimsins. Annað verður ekki sagt.

Tveir bolir frá hinum ágætu samtökum Bureaucrash voru að berast mér í hendur. Ljómandi gott að hafa ný klæði fyrir Íslandsbröltið.

Fyrir um tveimur vikum voru mannaskipti í fjögurra manna skrifstofunni minni í vinnunni. Út fór kvenmaður og í staðinn kom þessi ljúfi piltur. Sá piltur á frekar erfitt með að aðlagast hinni súru diss-stemmingu sem ríkir (ekki ólík þeirri á Verkfræðistofnun í gamla daga) og er núna einlæglega byrjaður að kvarta yfir því að vera kallaður "tøse" og heyra klámfengna útúrsnúninga úr öllu sem hann segir. Greyið hann segi ég bara!

Eitthvað fleira í bili? Nei ætli það. Sjáumst fljótlega!

1 comment:

Anonymous said...

Bíddu, ekki heitir hann Børghne?