Monday, October 31, 2005

Ljómandi helgi

En ágæt helgi. Föstudagskvöldið var notað til hressilegrar ölvunar án þess að einhver hafsjór minninga fylgi þeirri sögu. Laugardagurinn var notaður til að vinna upp svefn heillar vinnuviku, og laugardagskvöldið til að sjá mjög ágætri vinkonu fyrir afþreyingu í formi labbitúrs um Kaupmannahöfn, snæðings á góðum veitingastað og áfengisneyslu á ýmsum misfrægum en góðum ölstofum og kaffihúsum. Útúrsofinn vaknaði ég svo kl 6 í morgun og ekki vottur af þreytu í líkamanum.

Vikuplan: Kíkja daglega í Fréttablaðið eftir grein eftir ónefndan mann. Fara heim úr vinnunni fyrir kl 19 öll kvöld, eftir að hafa mætt fyrir kl 8 alla morgna. Fara rækilega í gegnum ferðatölvumarkað Danmerkur og finna það besta sem 7000< danskar krónur geta keypt.

Mikið er þetta leiðinleg færsla. Hérna eru 200 orð úr DV síðasta fimmtudags:
Heimsveldið Ísland
Íslenskir kaupsýslumenn hafa, eins og kunnugt er, verið í miklum fyrirtækjakaupum í Evrópu á síðustu misserum. Ekki er nóg með að viðskiptabankar Íslands hafi verið að skjóta niður rótum um alla álfuna, heldur hafa flugfélög, verslanakeðjur og sjávarútvegsfyrirtæki einnig verið ofarlega á kauplistanum.

Danir finna mjög fyrir þessari kaupgleði Íslendinga. Kaup Íslendinga á Magasín, Illum og Sterling-flugfélaginu hafa vakið athygli í landi Bauna, og þeir hlægja góðlátlega að því þegar sagt er að bráðum verði Danmörk að orðin íslenskri nýlendu, og að þannig nái Íslendingar að hefna sín á aldalangri kúgun Dana á Íslendingum. Munurinn er hins vegar sá að hin íslenska nýlendustefna byggist á friðsömum samningum á hinum frjálsa markaði, en ekki á herskipaflota og ofbeldi. Íslensk nýlendustefna hefur líka, ólíkt hinni dönsku frá fyrri tíð, í för með sér aukna velmegun þess hertekna, og bætt lífskjör. Peningar hafa tekið við byssum, og samningar hafa komið í stað ofbeldis. Alþjóðavæðing hefur tekið við heimsstyrjöldum, peningaliturinn er orðinn mikilvægari en húðliturinn, viðskiptavitið er komið í stað herkænskunnar, og heimsvaldsstefnan byggist nú á kapítalisma og friðsömum samningum en ekki morðum og sósíalisma. Þetta gera vonandi sem flestir sér grein fyrir.
Meira leyfa 200 orð ekki að þessu sinni. Auðvitað sé ég núna óteljandi atriði sem má laga í textanum, en ég laga þau ekki.

Friday, October 28, 2005

Helgar"frí"

Ég held ég verði hreinlega að mæta í vinnuna á morgun, og vona hreinlega að Jói nokkur verði of þreyttur í kvöld til að fagna skilum á lokaverkefni sínu og fresti öllu sukki til morguns. Samt ekki, því ég er sjúklega þreyttur eftir frekar strembna viku og myndi glaður grípa hverja afsökun til að fara í sukkið í kvöld. Jóa er samt bannað að byggja nokkra djammákvörðun á þessum skrifum.

"Man kan godt lave design efter et glas rødvin" eru orð þaulreynds samstarfsmanns sem ég gæti haft í huga og mætt þunnur í vinnuna á morgun með góðri samvisku en slæman hausverk.

Fréttablað dagsins var (blessunarlega?) laust við skriftir mínar en mér skilst að blaðið á morgun sleppi ekki alveg eins vel. Óstaðfest en væntanlegt. Lesendum er bent á að kynna sér þennan texta ef þeir hafa í hyggju að lesa mín skrif. Þess má geta að ég vil hærri laun en ég "þarf" eða "á skilið", ég er sá eini sem veit hvað ég þarf, og enginn getur metið hvað ég á skilið.

Thursday, October 27, 2005

Rugl dagsins

Hér er að finna þvælu dagsins, sem er svohljóðandi:
Ríki eiga val um stjórnarstefnu eins og vel sést á þeirri staðreynd að Svíþjóð og Bandaríkin eru með álíka samkeppnishæft atvinnulíf.

Menn geta því kosið sænska módelið ef þeim sýnist svo án þess að það bitni á atvinnulífinu. ...
Þarna eru tveir óskyldir punktar tengdir saman. Atvinnulíf í Svíþjóð er sárþjáð af ríkisafskiptum, og launafólk er hópur í útrýmingarhættu þar í landi. Samkeppnishæfnin er ekki mæld í skattprósentum heldur því hve vel eignarréttur er varinn í viðkomandi landi, og hvort dómskerfi sé virkt og spilling stjórnmálamann sé lítil. Stærð velferðarkerfisins er ekki mæld og venslin milli stærðar þess og samkeppnishæfni er í besta falli tilviljanakennd.

Hringurinn fullkomnaður

Úr ályktun ónefnds stjórnmálaflokks: "Styðja þarf drengi sérstaklega til náms."

Breytingatillaga af minni hálfu: "Hætta ber að girða niður um nemendur til að vega og meta þörf þeirra á aðstoð."

Útrás

helvítis-djöfulsins-fjárans-andskotans-bévítans-fokkings-krapp-fokk-fokk-fokk!!!!!!

Ekki þróunarHJÁLP

Þetta er athyglisverður félagsskapur. Lífeyrissjóður í Danmörku, PKA, með það takmark að hámarka arðsemi eiginfjár síns og viðskiptavina sinna er byrjaður að fjárfesta í verkefnum þróunaraðstoðarstofnunar Danmerkur, Danida, í þróunarlöndunum, en sú stofnun hefur það markmið að aðstoða og byggja upp. Þetta er nákvæmlega það sem þróunarlöndunum vantar - fjármagn frá fjárþyrstum fjárfestum kapítalísku landanna.

Metnaður til að auka auð sinn (oft kallað græðgi) kominn inn sem nýtt afl til uppbyggingar í þróunarlöndnum. Vonandi rakar lífeyrissjóðurinn inn á þessum fjárfestingum sínum svo milljarðarnir geti byrjað að streyma suður frá fleiri fégráðugum auðpúkum.

Wednesday, October 26, 2005

DV

...á morgun.

Atvinnulaus?

Ef einhverjum langar að vinna sem vélaverkfræðingur í Danmörku þá vantar eins og heilan helling hjá NKT Flexibles.

Ég

Síðan myndavélinni minni góðu var rænt í byrjun febrúar hefur verið eitthvað lítið af sjálfum mér á þessari síðu. Úr því verður nú bætt með tveimur myndum. Sú fyrri er um mánaðargömul, og sú seinni tæplega vikugömul.


Þess má geta að í hvorugu tilviki hef ég fengið leyfi ljósmyndarans til birtingar, en þakka þeim báðum fyrir.

Lögmálið - framhald

Kvenmaður A og kvenmaður C nú komnar í félagslegt, létt hjal. Lögmálið heldur.

Kaffi er gott

Kaffi er gott er það fyrsta sem ég man eftir að hafa hugsað í dag.

Strætó- og lestarkerfið hlýtur að hafa misst maaaarga farþega í gær. Skilti á einni fjölförnustu lestarstöðinni bilaði með tilheyrandi aflýsingum á öllum lestum í vesturátt í gvuð-má-vita-hve langan tíma. Sem betur fer slapp ég í síðustu lestina sem slapp úr ringulreiðinni. Ofan á það var úrhellingsrigning. Ofan á það þurfti að stoppa lestina mína til að löggan gæti komið og handtekið einhvern. Ofan á það voru strætóar seinir þegar lestinni sleppti. "Ég kaupi mér hjól núna, því þótt það þýði að ég verði hundblaut þá veit ég a.m.k. hvað þessar 45 mínútur fóru í." Konan sem sagði þetta endurtók hugsanir mínar.

Hérna er gömul rökræðuvilla dregin upp á yfirborðið. Samkeppnishæfni Norðurlandanna er ekki góð af því að þar eru háir skattar og risavaxið velferðarkerfi, heldur þrátt fyrir það. Samkeppnishæfnin er mæld m.a. út frá því hve vel eignarréttur er skilgreindur og varinn, og hve greiður aðgangur er að dómskerfinu ef og þegar samningssvik eiga sér stað. Einnig: Aðgangur að innlendu og erlendu fjármagni, sveigjanleiki reglugerða í viðskiptaumhverfinu, og fleira af þessu tagi. Velferðarkerfi og skattar á laun eru einfaldlega ekki mælistikur sem eru notaðar til að mæla samkeppnishæfni, þó hugsanlega með þeirri undantekningu að aðgangur að hæfu starfsfólki sé mældur, sem aftur gæti verið kominn til af því að skólakerfið er duglegt að framleiða gott fólk á markaðinn, sem aftur gæti tengst því hve margir skólabekkir og kennarar standa til reiðu í landi, sem aftur gæti tengst ríkisrekstrinum, sem aftur kemur inn á svið velferðarkerfis og skatta. Þéttari eru tengslin samt ekki.

Í fyrradag fékk ég bréf sem sagði að nú væri búið að skilgreina svokallaðan Nemkonto fyrir mig (sem sagt, kerfið fann bankareikning í mínu nafni og spurði í bréfinu hvort hann mætti ekki nota sem minn Nemkonto). Byrjun bréfsins er nokkurn vegin svohljóðandi:"Flestir borgarar fá stundum pening frá hinu opinbera. Þetta gæti t.d. verið ofgreiddur skattur, barnabætur, eftirlaun, SU, reiðuféshjálp, laun, húsaleigubætur eða atvinnuleysisbætur." Punkturinn er svo að ríkið vill að allir hafi bankareikningsnúmer skráð í kerfinu svo auðveldar sé að millifæra opinberu greiðslurnar beint á fólk í stað þess að nota ávísanir.

Þetta er auðvitað stórsniðugt. Næsta skref er auðvitað að breyta lögum örlítið og leyfa ríkinu að rukka mann líka, t.d. fyrir útvarpsleyfisgjöld, ógreidda skatta, sektir, ógreidd meðlög, fjármagnstekjur, sölugróða og þar fram eftir götunum. En áður en það gerist er kerfið sniðugt. Mér fannst byrjun bréfsins hins vegar lýsandi fyrir það að allir eru meira eða minna komnir undir náðarhönd opinberra framfærslna. Nei, ekki bara þeir sem þurfa hjálp, eða hafa engin úrræði, eða lenda í ófyrirsjáanlegum en tímabundnum erfiðleikum, heldur allir. Var það tilgangur velferðarkerfisins að gera alla bæði skattpínda og hjálpar þurfi? Ég efast um það. Má ræða einföldun velferðarkerfisins? Nei, því þá er maður víst að ræða um að svipta þá hjálpar þurfi hjálp.

Nóg tuð. Fréttablaðið fékk tæplega 1000 orð í gær. Vonandi fá þau óstytta birtingu því það var af nægu að taka hér.

Tuesday, October 25, 2005

Lögmálið samt við sig

Eftirfarandi lýsing á raunverulegum atburðum er bara til þess fallin að staðfesta vel þekkt lögmál:

Fyrir nokkrum vikum byrjaði myndarlegur kvenmaður (kvenmaður A, þótt réttnefni væri kvenmaður C, ef ekki D) að vinna á sömu hæð og ég. Nokkru síðar byrjaði annar myndarlegur kvenmaður (kvenmaður B, þótt réttnefni væri kvenmaður C) að vinna á hæðinni. Mér datt í hug að þessir tveir kvenmenn myndu fyrr en síðar byrja fara í mat saman, eða byrja kjafta saman á vinnustaðnum um eitthvað óvinnutengt. Í millitíðinni byrjaði þriðji myndarlegi kvenmaðurinn (kvenmaður C, sem þó ætti frekar að kallast kvenmaður B) og núna sé ég að kvenmaður B og kvenmaður C eru byrjaðir að kjafta saman á félagslegan hátt, og lögmálið þekkta þar með að verða staðfest. Ef kvenmaður A slæst í þennan hóp þá lít ég svo á að svo sé.

Monday, October 24, 2005

Mygl

Kroppurinn er ekki alveg búinn að ná sér eftir þriggja daga sukk með Hauknum og fylginautum. Kaffið bragðast skringilega, maginn er í stanslausu uppnámi, hausinn er þungur og heilinn er hægur. Allt merki um góða helgi!

Húrra fyrir þessu! Viðbrögð! Að vísu bara að litlu leyti við mínum skrifum sem slíkum þótt þau hafi verið innblásturinn, en viðbrögð engu að síður. Note to self: Nota efni héðan.

Ég verð samt að passa mig svolítið á því hvaða málefni ég tek fyrir, og hvernig ég tek þau fyrir. Sumt er nefninlega erfiðara að fjalla um en annað. Ég gæti skrifað 1000 orð (eða 860) um landbúnaðarstyrki, verndartolla, ríkisstyrki til atvinnugreina, verkalýðsfélög og frjálsa verslun og fjallað í ítarlegu máli um hvernig hundruðum milljónum manna er haldið föstum í mikilli fátækt og á hungurmörkum vegna skilningsleysis vestræns almennings á nauðsyninni á auknum kapítalisma í heiminum. Við þessu fengi ég kannski eina athugasemd frá einum bloggara. Hins vegar er ég fljótur að fá kinnhestinn ef ég efast um skynsemi þess að fara í verkfall. Hvað er málið?! (Nú einfalda ég hlutina viljandi en það er bara til að sýna fram á punkt, og hvað mér finnst forgangsröðun samfélagsumræðunnar vera hlægileg, og hvað mitt persónulega álit er á því hvernig fólk bregst við sumum umræðuefnum en ekki öðrum.)

Anyways, núna er ég búinn að pirra sjálfan mig og ætla því að hætta skrifa.

Afsökunarbeiðni

Ég má til með að biðjast afsökunar á því að hafa togað í viðkvæmar taugar í nýlegum skrifum um vinnuniðurlagningu kvenna. Þetta er mörgum mikið tilfinninga- og réttlætismál og rétt eins og með önnur slík mál er kannski rétt að sýna aðgát í nærveru sálar og segja minna frekar en meira, og alls ekki að láta neitt grín skína í gegn.

Hins vegar ætla ég að láta skrifin standa án afsökunarbeiðni því mér finnst þau vera sjónarhorn sem enginn þorir lengur að færa fram undir nafni, og er þess í stað sett fram í formi nafnlauss dreifiefnis og annarra slíkra tjáningarmiðla. Mér finnst leiðinlegt að sjá að mikilvægt málefni eins og jafnréttisbarátta mismunandi hópa einstaklinga með mismunandi líkamleg persónueinkenni skuli hafa verið púað niður á það umræðuplan.

Thursday, October 20, 2005

Niðurtalningin er hafin

Ég á víst frí á morgun í vinnunni. Ég er samt svo óralangt fjarri því að vera með hugann við það (ef undan er skilin þessi bloggfærsla). Á milli mín og langrar helgi er heilt fjall af misáríðandi verkefnum, og fundur sem mér er sagt að geti auðveldlega orðið þeir fjórir tímar sem hann er skrifaður á planinu til að vera. Þar þarf ég meira að segja að útskýra eitthvað sem ég hef gert.

En þetta hlýtur allt að verða þess virði. Maður á nefninlega ekki að fara í frí með góðri samvisku er það?

Að öðru, að þá sé ég núna að trúverðugleiki Seðlabankans hefur nú aukist til muna. Ástæðan er sú að Ingibjörg Sólrún hefur ákveðið að draga sig úr bankaráði hans. Trúverðugleikinn eykst ekki af þeim ástæðum sem hún nefnir. Hann eykst af því hún sem persóna og pólitískur vindhani dregur sig nú úr bankaráði.

Margar konur hafa nú ákveðið að leggja niður vinnu á vikudegi til að sýna umheiminum af hverju karlmenn þéna almennt meira en konur. Ástæðan er sú að karlmenn vinna almennt lengur en konur. Vonandi fá konur sem taka sér frí hressilegan mínus í næstu launaávísun til að undirstrika þetta.

Hérna er baunað skemmtilega á Íslendinga. Vonandi er þetta samt ekki alþjóðlegur orðstír Frónbúa.

Fyrir áhugamenn um heimsfrið: "Everyone approves of democracy, but "capitalism" is often a dirty word. However, in recent decades, an increasing number of people have rediscovered the economic virtues of the "invisible hand" of free markets. We now have an additional benefit of economic freedom - international peace." Kapítalimi = friður. Þá hafa tölurnar loksins staðfest það sem hugsuðir og heimspekingar af ákveðnum væng stjórnmálanna hafa sagt í aldaraðir.

Wednesday, October 19, 2005

Allt á sínum stað

Miðvikudagsheltan eftir þriðjudagsfótboltann er eins og vikuleg vekjaraklukka sem minnir mig á skrokkinn. Nú fer samt að verða of kalt. Verkur í lungum og aðeins of slappur líkami m.v. aðra miðvikudaga eru fyrstu merki þess.

Haukurinn lendir í dag og verður gripinn á morgun. Þriggja sólarhringja áfengisneysla er takmarkið. Netfjarvera verður sem afleiðing mikil.

Tuesday, October 18, 2005

Tár í augun

Ef maður starir á tölvuskjá á vitlausri tíðni í 7 klst úr 30 cm fjarlægð þá byrjar maður að tárast. Svo mikið er víst.

Ég var u.þ.b. hársbreidd frá því að senda skopmynd af forstjóranum út á póstlista sem meðal annars inniheldur forstjórann. Sem betur fer skildi ég póst vitlaust og skopmyndin varð því af einum verkefnisstjóranum, og í raun var um sæta hefnd að ræða því sá hinn sami hafi gert athugasemd við hreinlæti innanverðs kaffibolla míns í morgun (hence, bloggfærsla um málið).

Haukurinn, T-minus 2 days. Lifrin kvíðir fyrir, önnur líffæri bíða spennt.

Spurning..

veit ég að maður þvær ekki kaffibollann sinn að innan. Kaffibolli á að innihalda þykka og brúna skán. Þannig er það bara. Af hverju veit alheimur þetta ekki? Af hverju þessi endalausu komment um að ég eigi að þrífa kaffibollann að innan? Af hverju veit fólk ekki sjálfsagða hluti?

Monday, October 17, 2005

Jahérnahér

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að ég myndi lifa þann dag að sjá reglur um reykingar útvíkkaðar! Nú á að rýmka reykingareglurnar í mötuneytinu í vinnunni töluvert miðað við hið algjöra reykingabann sem ríkir þar núna. Ég á bara ekki til eitt einasta orð.

I Defy

I Defy með Machine Head er örugglega í topp 10 yfir bestu þungarokkslög nokkurn tímann samin.

Metfjöldi kaffibolla

Ég held ég hafi slegið metið í fjölda kaffibolla fyrir kl 13 á vinnudegi: Tveir! Þetta er vitaskuld metið í því hve fáa bolla ég hef drukkið á þessum tíma vinnudags en ástæðan er auðvitað almennt stress og almennur hasar sem heldur mér frá kaffivélinni. Núna er stefnt á að vinna upp tapaða koffíninntöku.

Eftir þrjár vikur í röð með 6 vinnudaga vinnuvikum verður gríðarhressandi að byrja helgina eftir vinnu á fimmtudegi. Síðan er gríðargóð ferðaplön að fæðast hjá sauðhærða vini okkar sem vonandi verða staðfest sem allrafyrst. Vonandi rætist úr öðrum ferðaplönum líka. Minni samt ferðalanga á að nú allt í einu er skítkalt í Kaupmannahöfn. Húfur og vettlingar og hlýjar peysur eru möst.

Saturday, October 15, 2005

Alvöru

Í gær talaði ég við vinnufélaga sem sagði nokkuð sem í raun liggur bak við allt sem vinstrimenn segja, en er aldrei sagt opinberlega: "Ég er hlynntur því að fólki sé mikið stjórnað af ríkinu, því ég held að flest fólk sé of vitlaust til að stjórna sínu eigin lífi." Þetta sagði hann í samhengi við heilbrigðistryggingar og menntastofnanir. Vinstrimenn telja hins vegar sjálfa sig vera snjallari en aðra, og að ekki þurfi að stjórna þeim neitt sérstaklega heldur bara öllum hinum vitleysingunum.

Ætli þessi þankagangur sé ekki ástæða þess að vinstrimenn eru víða í útlöndunum einfaldlega kallaðir elítistar?

Fullkomlega heiðskýrt

Hlýtt úti og alveg heiðskýrt. Er október?

"Það dugar nefnilega ekki alltaf að kjósa með höndunum í kjörklefanum á fjögurra ára fresti. Stundum neyðast menn til að taka til fótanna." (#) Þetta var ég að reyna útskýra fyrir yfirmanni mínum í gær (eftir nokkra bjóra) - lýðræði er auðvitað val á því hver ræður yfir lífi manns og limum, en valið máttlaust því það nær yfir svo langan tíma, og er truflað af svo mörgu öðru. Hvernig ætli fólki myndi líða að þurfa ákveða ostaneyslu sína í fjögurra ára tímabilum? Hvers konar val væri það? Hvað með tryggingafélög? Veljum vil ekki tryggingafélög fyrir heilbrigðisþjónustu á fjögurra ára fresti? Nei, þá er tímabilið komið upp í þau 10-50 ár sem tekur að koma á stórum kerfisbreytingum með lýðræðislegu ferli. Lýðræði er gott og blessað í sjálfu sér og mjög hentugt tæki til að skipta um valdhafa án blóðsúthellinga, en það er bara þannig að fæstar ákvarðanir eru vel til þess fallnar að vera teknar af stjórnmálamönnum á fjögurra ára ráðningarsamningum.

Vei!
Julefrokost 2005 - Sæt kryds i kalenderen den 16. december, så du kan være med til årets julefrokost på NIMB ved Tivoli.
Síðasta vinnustaðafylleríi var vægast sagt flóðbylgja kræsinga og áfengis. Ég býst við engu minna fyrir það næsta.

Núna var ég að lesa að réttindi séu bara einhver vitleysa á stultum. Mikið hefði Stalín verið ánægður að heyra það.

Friday, October 14, 2005

Aksion föstudagur

Gríðarhasar í dag og vinna á morgun líka. Gott mál segi ég. Næsta helgi verður aftur á móti löng og afslöppuð. Ég hef fengið O.K. við að taka frí næsta föstudag og án þess að hafa kannað málið mjög nákvæmlega þá verður sú helgi þéttur sukkpakki með fólki að klára lokaverkefni og Haukinn í stuttri heimsókn, sumsé svínarí eins og það gerist best.

DV inniheldur nokkur orð í dag um - já ótrúlegt en satt - Baugsmálið! Jæja, kannski ekki beint um Baugsmálið en eitthvað því tengt. Ég nenni engan veginn að setja mig inn í Baugsmálið. Maður á mann, orð á móti orði, valdatafl og lögsóknir. Leiðinlegt mál eins og leiðinleg mál gerast best.

Thursday, October 13, 2005

Multi-Geir

Kulturnat á föstudagskvöld. Einhver til í hamrandi sukk og svínari?

Örgjörvinn á tölvunni búinn að keyra á 100% í allan morgun og þökk sé svimandi þungu rokki þá hefur það sama átt við mig. Ánægjulegt.

Annað ánægjulegt var að vakna við rödd norskrar stúlku í eyranu í morgun og veita henni örlitla aðstoð í upphafi dags.

Síðasta setning hefur væntanlega misskilist eins og til var ætlast. Ég veit ekki hvort ég eigi nokkuð að eyða þeim misskilning.

Wednesday, October 12, 2005

Skrýtinn talsmáti

Fyrirsagnir í dönskum blöðum eru margar hverjar furðulegar. Yfirleitt fjalla þær um eitthvað sem þarf að gera, eða verður að gera, eða mun gerast eftir orðum einhvers þingmannsins eða verkalýðsforingjans. Tónninn er einhvern veginn á þá leið að eitthvað er alveg hræðilegu ástandi og það verði að leiðrétta. Kannski er þetta ekkert danskt frekar en íslenskt, en ég man ekki eftir dómsdagstóninum frá Íslandi. Ég held að dómsdagstóninn komi af því að stjórnmálamenn ráða ansi miklu í Danmörku og til að virkja samfélagshönnuðinn í þeim þurfi að tala með mjög ákveðnum tón, og helst fullyrða svo sterkt að enginn þorir að mæla í mót. Ætlar þú að hækka fjárstuðning úr vösum sumra í vasa annarra? Þessu þorir enginn þingmaður að neita, óháð því hver fær að blæða í vasa hvers.

Einhvern tímann var mér sagt að í lágmarksríkinu Sviss væru stjórnmál almennt mjög lítill hluti af samfélagsumræðunni. Viðskiptalífið væru þeim mun fyrirferðarmeira umræðuefni. Miðað við Danmörk er hægt að segja svipaða sögu á Íslandi, en auðvitað er algjörlega út í hött að fólk þurfi að biðla til stjórnmálamanna til að koma breytingum áleiðis. Fólk ætti að hafa vaxið uppúr því að líta upp til forráðamanns fyrir hverja ákvörðun þegar 18 ára aldrinum var náð.

En að léttara hjali: Veðrið er ljómandi gott í dag og það er gott. Miðvikudagsheltan eftir þriðjudagsfótboltann er á sínum stað og almennt er allt að hjakka í sínu hjólfari eins og áður.

Ánægjulegur listi verð ég að segja. Nokkrir höfðingjar þarna skráðir til leiks sem sjálfsagt munu fá góðar móttökur á atvinnumarkaðnum.

Er ég sá eini í heiminum sem dreg samasemmerki milli háskólagráðu í frönskum bókmenntum, og atvinnuleysis?

Tuesday, October 11, 2005

VARÚÐ - PÓLITÍK!

Má til með að pólitíkast örlítið. Hér er ágætur og vel (en rangt, að mínu mati) þenkjandi piltur að reyna hnýta í einn af heimspekingum frjálshyggjunnar, Robert Nozick (kallar hann reyndar fulltrúa einhverrar annarrar stefnu en það er nú eins og það er). Þarna er kafli sem heitir "Sjálfræði, sjálfseign" og þar er nokkrum spurningum varpað fram. Þeim þarf vitaskuld að svara (Ath það er ég sem sný ýmsum setningum yfir á spurningaformið fyrir sakir formsins).

Við eigum okkur sjálf, þ.e.a.s. við erum sjálfráðar manneskjur. Fyrst við eigum okkur sjálf, eigum við einnig hæfileika okkar? Svarið hérna er . Án líkamans (sem við eigum hvert fyrir okkur) þá eru engir hæfileikar. Af því leiðir að við eigum hæfileika okkar. Sagt á örlítið annan hátt - það að ég fæðist með tvö nýru en einhver annar án nýra þá á hinn nýrnalausi ekki tilkall til annars af mínum nýrum, þótt vitaskuld geti hann biðlað til mín og keypt eða fengið annað þeirra. Ég á nýrun þar til ég ákveð annað, óháð nýrnastöðu annarra, þörf eða ofgnótt.

Fyrst við eigum hæfileika okkar, eigum þá við einnig allt sem við framleiðum með hæfileikum okkar? Nei, ekki allt ef við erum launafólk. Þá gerum við samkomulag um hvað við viljum í umbun fyrir að nýta heilabú okkar og skrokka til að vinna sem maurar í maurabúi kapítalistans (án gríns). Það að önnur manneskja en ég sé til þýðir ekki að sú manneskja eigi tilkall til þeirra verðmæta sem ég skapa eða þeirra launa sem ég hef samið um við minn vinnuveitanda. Þótt önnur manneskja sé til þá þýðir það ekki að hún eigi tilkall til eins né neins á mínum skrokk eða af þeim eigum sem minn skrokkur er tengdur í formi eigna minna. Á leigubílstjórinn sjálfkrafa og óhindrað tilkall til launa minna af því hann er til og til þjónustu reiðubúinn ef ég þarf á honum að halda? Nei, slíkt hrægammasamfélag kæri ég mig ekki um.

Brýtur skattlagning á tekjum fólks, eða önnur efnahagsleg afskipti, á rétti okkar til þess sem við framleiðum með hæfileikum okkar? Já, því ef við greiðum ekki skattana þá kemur maður með byssu og vísar okkur í fangaklefa. Svo einfalt er það. Hins vegar sætta margir menn undir byssukjafti sig við ýmislegt ef sannfæringarkrafturinn um ágæti nýtingar ránsfengsins er mikill og sterkur. Það þýðir þó ekki að ránið sé réttlátara eða rökstuddari athöfn.

Annars er höfundur áðurnefndar greinar kannski metnaðarlaus að láta Nozick um að færa öll rökin. Hér (.pdf) er örlítið hlutbundnari rökstuðningur á eignarréttinum og hér (.pdf) er ein ágæt bók sem byrjar á ágætri umfjöllun um sjálfseignarrétt mannsins og ýmsar rökréttar (og rökstuddar!) afleiðingar þess rétts. Allt í boði Hans-Hermann Hoppe, sem er svo ágætur. Þó engin þörf á að lesa allt heila klabbið fyrir sakir þessarar umræðu.

Eirðarleysi gærdagsins tvímælalaust horfið

Þetta hlýtur að vera með þéttpakkaðri dögum. Sem betur fer er nú vinnufótboltinn framundan með tilheyrandi svita og sötri. Ef ég verð duglegur í kvöld þá get ég jafnvel séð fram á að komast heim fyrir sólsetur á morgun. Ljómandi gott allt saman.

Húrra

Svo virðist sem eini skipulega þenkjandi vinstrimaðurinn sem er eftir á netinu sé Sveinbjörn Þórðarson. Hérna tekur hann fyrir orðaval mitt í nýlegri grein hjá mér og fær fyrir vikið athugasemdir nokkura sem að eigin sögn hafa ekki lesið greinina, en taka samt undir gagnrýnina á henni (vonandi misskildi ég samt eitthvað þar við snögga yfirferð). Gagnrýni Sveinbjörns fæ ég vonandi tækifæri til að svara í vikunni.

Monday, October 10, 2005

Úfffff

Þvílíka og annað eins eirðarleysið í mér í dag. Ef ekki væri fyrir rauðglóandi dead-lines þá væri ég búinn að lesa hvern stafkrók á öllum vefritum og fréttasíðum, blogga út í eitt, skrifa fimmtán greinar og sörfa allar dónasíður. Kannski ég skipti þungarokkinu út fyrir svolítið trommuheilafjör og sé hvað gerist.

Grátt í Danaríki

Þoka yfir öllu og einhver þyngsli yfir Kaupmannahöfn í dag. Menn eru misstemmdir á vinnustaðnum, ég sjálfur meðtalinn. Það var erfitt að skrölta fram úr rúminu í morgun.

Helgin var engu að síður ljómandi góð. Ingimar var hress. Leigusamningur var loksins undirritaður, en ekki til mjög langs tíma (rennur út 31. mars 2006 því eigandinn ætlar að selja íbúðina). Á ég að kaupa íbúð fyrir 4 milljónir danskra króna á 100% láni (ef það er hægt) og selja hana eftir 2-3 ár? Þetta er ég að hugleiða af mikilli alvöru.

Vinnuvikan kemur til með að verða í dæmigerða kantinum hvað verkefnamagn varðar, en líklega fjölbreyttari en síðasta vika þegar kemur að sjálfum verkefnunum. Þá veit alheimur það.

Saturday, October 08, 2005

Fyndið

Ég held ég muni aldrei vaxa uppúr því að finnast hrokafullur MR-tónninn fyndinn. Þessu hló ég að:
[V]erzlingar hafa með sínu skítlega eðli oft stundað þann ósið að nefna MR-ví daginn ví-MR daginn. Þó ættu allir með sæmilega máltilfinningu að greina það að hið fyrra er mun þjálla og fallegra. Svo er MR líka á undan í stafrófinu og fæðukeðjunni yfirleitt. (#)
Eftir fjórða lestur hlæ ég enn. Hvor vann í ár?

Úr því ég er að vitna í annarra manna texta sem fá mig til að hlægja:
Minnst [framlag úr ríkissjóði skv. fjárlagafrumvarpinu] fær Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði, eina milljón króna. Þá upphæð átti skólinn að fá á fjárlögum ársins en það gleymdist við fjárlagagerðina í fyrra. (#)
Gleymdist? GLEYMDIST? Hver urðu svo áhrif gleymskunnar? Fullkomlega óstjórnlegur fólksflótti frá Ísafirði? Bjargaði Rögnvaldur sér kannski með því að reka skólann sinn á ólögboðnum notendagreiðslum? Ef bara fleiri gríðarmikilvægar stofnanir á opinberri framfærslu gætu gleymst aðeins oftar. Þá fengi fólk kannski fjárhagslegt svigrúm til að velja afþreyingu og áhugamál sjálft.

Gráðugur í Fréttablaðinu

Fréttablaðið í dag (.PDF, lítil 44 mb), bls 12, "Græðgi er vanmetin".

Friday, October 07, 2005

Sólríkur flöskudagur

Þá er strax kominn föstudagur aftur og mikið er það ágætt. Verkefnabunkinn er orðinn töluvert grynnri svo kannski ég komist heim fyrir sólsetur í dag. Svo lítur út fyrir að maðurinn með helgarvinnuverkefnin sé ekki að standa sig að útvega þau svo kannski verður engin helgarvinna. Þá er ekkert eftir á verkefnalistanum nema samningaviðræður við íbúðareiganda. Ljómandi.

Ritstjórar hafa mjög knappan ritstíl í tölvupóstum. Annað get ég ekki sagt.

Hefur einhver séð DV í dag?

Nú datt aldeilis stórt verkefni inn í pósthólfið. Húrra fyrir því.

Thursday, October 06, 2005

Tvær spurningar og svör

Spurning: Hvernig breytiru kommúnista í kapítalista?
Svar: Gefðu honum, og honum persónulega, kapítal.

Spurning: Hvernig breytiru frjálshyggjumanni í félagshyggjumann?
Svar: Skattleggðu hann þar til laun hans hætta að duga honum til að sjá um sig og sína.

RÚV

Ónefndur snillingur fær nú orðið:
Sjónvarpshluti fjölmiðlaveldis ríkizins hefur legið niðri á heimili mínu frá því um kl 18 í dag vegna rafmagnsleysis. Ég fann fyrir gríðarmiklu öryggisleysi, enda er þetta mesta öryggistæki þjóðarinnar. Ég á ekki útvarpstæki (hey, it's 2005!) og internetið lá niðri. Milli vonar og ótta horfði ég á frjálsu sjónvarpsstöðvarnar, Stöð 2 og Skjá einn - en auðvitað gátu þær verið að blekkja mig með röngum fréttaflutningi eða áróðri í sjónvarpsþáttum.

Hvað átti ég að gera? Jú, ég lagðist upp í rúm í fósturstellingunni, sjúgandi þumalfingurinn og grét mig í svefn, eftir að hafa makað súkkulaði á mig allan þar sem ég stóð nakinn fyrir framan spegilinn...
Hvað munum við svo að heyra næst þegar einhver leggur til að RÚV verði einkavætt með manni og mús? Jú, að RÚV þjóni öryggishlutverki. Hið eina örugga við RÚV er að það þjónar sama hlutverki og FM957 - afþreyingarhlutverki. Jú, annað öruggt við RÚV: Það mun skila tapi af rekstri.

Blóðið hefur yfirgefið hausinn

Pakksaddur eftir hádegismat og allt blóð hefur yfirgefið hausinn til að taka þátt í meltingarferlinu. Hvað er hægt að gera í heilaleysinu? Nú auðvitað blogga... og skrifa í DV.

Alltaf er jafnánægjulegt og óvænt að sjá hverjir fylla teljarasúlur Ósýnilegu handarinnar. Þetta er ekki mest lest síða landsins en tvímælalaust sú eina sinnar tegundar þegar kemur að því að taka á málum út frá föstum grundvallaratriðum. Já, þetta leyfi ég mér að segja og segja þótt ég segi sjálfur frá.

Annars er maður búinn að reyna fylgjast með stóra bláa flokknum á Íslandi þótt erfitt sé að skilja hið rétta frá hinu ranga. Mínar fljótfærnislegu ályktanir eru eftirfarandi:
  • Sjálfstæðisflokkurinn er kominn töluvert nær miðjumoðinu en hann var fyrir mánuði síðan, og þá var hann kominn töluvert nær en fyrir ári síðan, og þá var hann kominn töluvert nær en fyrir 2-3 árum síðan.
  • SUS er komin nær miðjunni en hún var.
  • Heimdallur er undir stjórn vinstrimanns og það mun hafa gríðarleg áhrif á félagið þegar fram líða stundir, og hefur reyndar haft mjög mikil áhrif á einu ári.
Allt þetta hefur í sjálfu sér lítil persónuleg áhrif á mig, en maður hreinlega óttast hvað kemur fyrir Ísland ef þetta er viðhorfsbreytingin í eina vígi hægrimanna á Alþingi.

Það var þá ekki fleira að sinni.

Wednesday, October 05, 2005

Fundamaraþon

Einhverjum þykir eflaust ekki mikið til að sitja fjóra fundi í samtals 3 klst, en ég er orðinn rækilega fundamettur í dag. Núna loksins getur vinna hafist (með tilheyrandi bloggfærslu auðvitað).

Greinarhugmyndirnar hafa streymt inn og ég þakka fyrir það. Minnislistinn í bili:
  • Meðalmennskudýrkunin - hvernig meirihlutinn reynir að draga þá sem skara fram úr niður á meðalplanið, án þess þó að meðalplanið sé eitthvað sérstakt takmark meirihlutans.
  • Tjörnin sem byggingarsvæði - hví ekki?
  • Heilbrigðiskerfi markaðsins - dæmi um eitthvað sem virkar.
  • Samkeppnisstofnun - af hverju er hún ónauðsynlegt bákn, jafnvel þótt einn risastór aðili ráði öllu á ákveðnum markaði?
  • Sjávarútvegsgrein.
  • Fjölmiðlalög - eins og að henda grjóti í höfnina sína til að minnka stærð skipanna sem nota hana.
Var það eitthvað fleira?

Snillingur með vörn á morgun. Gangi honum sem allrabest! Sendið honum meil og tilkynnið komu ykkar - orvarj at HÍ púnktur is. Plássið í fyrirlestrarsalnum ku nefninlega vera takmarkað eins og gengur og gerist í hinum efnislega heimi (ólíkt hinum pólitíska þar sem t.d. skattfé virðist vera ótakmarkuð auðlind).

Tuesday, October 04, 2005

Úff

Einhvern tímann fannst mér gaman að nota spjallborð á netinu til að ræða pólitík. Sú tíð er löngu liðin. Svona furðuleg innlegg voru farin að fylla aðeins of mikið, og ef maður vogaði sér að segja að "skítlegt eðli" sé kannski ekki alveg hófsamasta orðavalið þá fékk maður saurfötuna yfir sig. Rakst nú reyndar á saurfötu á óvæntum stað í leit að mínu eigin nafni á Google, nefninlega síðasta athugasemdin við þessa færslu. Passlega falinn skítur þar á ferð sem vísar í ónefnda mynd sem ég væri nú alveg til í að fá senda ef einhver situr á henni. Minningar sjáið til.

Nú er allt í einu komin þessi glampandi sól og blíða í Danaveldi. Að vísu enn þörf á jakka á morgnana og kvöldin en annars stuttermabolsfært.

Annars má ég til með að segja eitt stórt og mikið URRRRRRRR!!! núna svo það sé skjalfest.

Ósofinn og ferskur

Það gekk ágætlega að fara seint að sofa og vakna hress. Þó ekki nógu hress. Ég held ég þurfi að fara enn seinna að sofa í kvöld. Þó er hætt við að þriðjudagsboltinn verði orkugefandi og valdi jafnvel einhverjum afköstum í kvöld. Sjáum hvað setur.

Hér er boðið upp á námskeið í boði íslenskra skattgreiðenda um hvernig á að sækja um styrki úr vösum evrópskra skattgreiðenda. Hvar endar þetta? Who is John Galt?

Eitthvað fleira? Nei ætli það.

Monday, October 03, 2005

You aint seen nothing yet

Ég vona að fyrrum formanni Samfylkingarinnar sé sama þótt ég steli frasanum hans í fyrirsögninni. Hér er ungur maður að skrifa um mín skrif, sem er vel. Viðkomandi ætti að hafa augun opin fyrir Fréttablaðsgreinum í vikunni. Þá fær hann nú aldeilis bloggmat!

Í nótt svaf ég fullkomlega náttúrulegum svefni. Ég sofnaði yfir bók í gærkvöldi án þess að hafa stillt vekjaraklukkuna (þ.e. símann) og vaknaði svo rétt fyrir kl 7 í morgun án þess að nokkuð hafi vakið mig sérstaklega. Maður hefði haldið að slíkur svefn væri ávísun á frískan og orkumikinn dag, en svo er aldeilis ekki. Ég er dauðþreyttur. Svei'attan. Ætla reyna fara seint að sofa í kvöld svo ég verði hress á morgun.

mp3-mappan Rebekka er hins vegar að gera góða hluti og er alltaf hress.

Lítil grein fyrir Þránd að kíkja á: A Minister-Free Health Care System. Þar segir: "Switzerland does not have any Ministry of Health." Ómögulegt, eða hvað?

Haltur maður

Þá er maður orðinn haltur aftur. Svo virðist sem Danir séu ekki alveg lausir við slagsmálagenið. Eitt spark í hægri sköflung er staðfesting þess. Hvatinn bak við sparkið er svolítið óljós, en það róar a.m.k. ekki Danann að segja "Din mor er..." í röð í 7-11 og síðan ekkert meira. Þá móðgast Daninn.

Í gær var hressandi fundur með eiganda íbúðarinnar sem ég bý í. Hann er sanngjarn maður og fínn kall en með bjánalegar innréttingarhugmyndir, og vonandi segir fasteignasalinn honum það í vikunni.

Saturday, October 01, 2005

Það tókst

Jebb, mættur til vinnu á laugardegi. Loksins tókst það. Meira að segja búinn að gera eitthvað og fyrsti kaffibollinn ekki kominn niður!

Teljarinn minn er að fara hamförum því ég sendi tölvupóst um daginn sem að hætti íslenskra prentmiðla hefur nú verið birtur opinberlega. Hressandi svo ekki sé meira sagt. Ætli Andri svari kallinu?

Bókalisti var birtur hér um daginn. Nú kemur listi yfir þau tímarit sem ég er að reyna velja á milli að gerast áskrifandi að (þótt e.t.v. sé nóg lesefni ólesið fyrir!). Listinn er fyrst og fremst minnislisti fyrir mig svo ekki lesa hann of hátíðlega:
Journal of Libertarian Studies
Reason Magazine
Economist (held þó ekki)
The Cato Journal eða Regulation (líklega ekki samt)
Svo mikið lesefni, svo lítill tími. Jæja, áfram með smjörið.