Kaffi er gott er það fyrsta sem ég man eftir að hafa hugsað í dag.
Strætó- og lestarkerfið hlýtur að hafa misst maaaarga farþega í gær. Skilti á einni fjölförnustu lestarstöðinni bilaði með tilheyrandi aflýsingum á öllum lestum í vesturátt í gvuð-má-vita-hve langan tíma. Sem betur fer slapp ég í síðustu lestina sem slapp úr ringulreiðinni. Ofan á það var úrhellingsrigning. Ofan á það þurfti að stoppa lestina mína til að löggan gæti komið og handtekið einhvern. Ofan á það voru strætóar seinir þegar lestinni sleppti. "Ég kaupi mér hjól núna, því þótt það þýði að ég verði hundblaut þá veit ég a.m.k. hvað þessar 45 mínútur fóru í." Konan sem sagði þetta endurtók hugsanir mínar.
Hérna er gömul rökræðuvilla dregin upp á yfirborðið. Samkeppnishæfni Norðurlandanna er ekki góð af því að þar eru háir skattar og risavaxið velferðarkerfi, heldur þrátt fyrir það. Samkeppnishæfnin er mæld m.a. út frá því hve vel eignarréttur er skilgreindur og varinn, og hve greiður aðgangur er að dómskerfinu ef og þegar samningssvik eiga sér stað. Einnig: Aðgangur að innlendu og erlendu fjármagni, sveigjanleiki reglugerða í viðskiptaumhverfinu, og fleira af þessu tagi. Velferðarkerfi og skattar á laun eru einfaldlega ekki mælistikur sem eru notaðar til að mæla samkeppnishæfni, þó hugsanlega með þeirri undantekningu að aðgangur að hæfu starfsfólki sé mældur, sem aftur gæti verið kominn til af því að skólakerfið er duglegt að framleiða gott fólk á markaðinn, sem aftur gæti tengst því hve margir skólabekkir og kennarar standa til reiðu í landi, sem aftur gæti tengst ríkisrekstrinum, sem aftur kemur inn á svið velferðarkerfis og skatta. Þéttari eru tengslin samt ekki.
Í fyrradag fékk ég bréf sem sagði að nú væri búið að skilgreina svokallaðan Nemkonto fyrir mig (sem sagt, kerfið fann bankareikning í mínu nafni og spurði í bréfinu hvort hann mætti ekki nota sem minn Nemkonto). Byrjun bréfsins er nokkurn vegin svohljóðandi:"Flestir borgarar fá stundum pening frá hinu opinbera. Þetta gæti t.d. verið ofgreiddur skattur, barnabætur, eftirlaun, SU, reiðuféshjálp, laun, húsaleigubætur eða atvinnuleysisbætur." Punkturinn er svo að ríkið vill að allir hafi bankareikningsnúmer skráð í kerfinu svo auðveldar sé að millifæra opinberu greiðslurnar beint á fólk í stað þess að nota ávísanir.
Þetta er auðvitað stórsniðugt. Næsta skref er auðvitað að breyta lögum örlítið og leyfa ríkinu að rukka mann líka, t.d. fyrir útvarpsleyfisgjöld, ógreidda skatta, sektir, ógreidd meðlög, fjármagnstekjur, sölugróða og þar fram eftir götunum. En áður en það gerist er kerfið sniðugt. Mér fannst byrjun bréfsins hins vegar lýsandi fyrir það að allir eru meira eða minna komnir undir náðarhönd opinberra framfærslna. Nei, ekki bara þeir sem þurfa hjálp, eða hafa engin úrræði, eða lenda í ófyrirsjáanlegum en tímabundnum erfiðleikum, heldur allir. Var það tilgangur velferðarkerfisins að gera alla bæði skattpínda og hjálpar þurfi? Ég efast um það. Má ræða einföldun velferðarkerfisins? Nei, því þá er maður víst að ræða um að svipta þá hjálpar þurfi hjálp.
Nóg tuð. Fréttablaðið fékk tæplega 1000 orð í gær. Vonandi fá þau óstytta birtingu því það var af nægu að taka hér.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment