Tuesday, October 11, 2005

VARÚÐ - PÓLITÍK!

Má til með að pólitíkast örlítið. Hér er ágætur og vel (en rangt, að mínu mati) þenkjandi piltur að reyna hnýta í einn af heimspekingum frjálshyggjunnar, Robert Nozick (kallar hann reyndar fulltrúa einhverrar annarrar stefnu en það er nú eins og það er). Þarna er kafli sem heitir "Sjálfræði, sjálfseign" og þar er nokkrum spurningum varpað fram. Þeim þarf vitaskuld að svara (Ath það er ég sem sný ýmsum setningum yfir á spurningaformið fyrir sakir formsins).

Við eigum okkur sjálf, þ.e.a.s. við erum sjálfráðar manneskjur. Fyrst við eigum okkur sjálf, eigum við einnig hæfileika okkar? Svarið hérna er . Án líkamans (sem við eigum hvert fyrir okkur) þá eru engir hæfileikar. Af því leiðir að við eigum hæfileika okkar. Sagt á örlítið annan hátt - það að ég fæðist með tvö nýru en einhver annar án nýra þá á hinn nýrnalausi ekki tilkall til annars af mínum nýrum, þótt vitaskuld geti hann biðlað til mín og keypt eða fengið annað þeirra. Ég á nýrun þar til ég ákveð annað, óháð nýrnastöðu annarra, þörf eða ofgnótt.

Fyrst við eigum hæfileika okkar, eigum þá við einnig allt sem við framleiðum með hæfileikum okkar? Nei, ekki allt ef við erum launafólk. Þá gerum við samkomulag um hvað við viljum í umbun fyrir að nýta heilabú okkar og skrokka til að vinna sem maurar í maurabúi kapítalistans (án gríns). Það að önnur manneskja en ég sé til þýðir ekki að sú manneskja eigi tilkall til þeirra verðmæta sem ég skapa eða þeirra launa sem ég hef samið um við minn vinnuveitanda. Þótt önnur manneskja sé til þá þýðir það ekki að hún eigi tilkall til eins né neins á mínum skrokk eða af þeim eigum sem minn skrokkur er tengdur í formi eigna minna. Á leigubílstjórinn sjálfkrafa og óhindrað tilkall til launa minna af því hann er til og til þjónustu reiðubúinn ef ég þarf á honum að halda? Nei, slíkt hrægammasamfélag kæri ég mig ekki um.

Brýtur skattlagning á tekjum fólks, eða önnur efnahagsleg afskipti, á rétti okkar til þess sem við framleiðum með hæfileikum okkar? Já, því ef við greiðum ekki skattana þá kemur maður með byssu og vísar okkur í fangaklefa. Svo einfalt er það. Hins vegar sætta margir menn undir byssukjafti sig við ýmislegt ef sannfæringarkrafturinn um ágæti nýtingar ránsfengsins er mikill og sterkur. Það þýðir þó ekki að ránið sé réttlátara eða rökstuddari athöfn.

Annars er höfundur áðurnefndar greinar kannski metnaðarlaus að láta Nozick um að færa öll rökin. Hér (.pdf) er örlítið hlutbundnari rökstuðningur á eignarréttinum og hér (.pdf) er ein ágæt bók sem byrjar á ágætri umfjöllun um sjálfseignarrétt mannsins og ýmsar rökréttar (og rökstuddar!) afleiðingar þess rétts. Allt í boði Hans-Hermann Hoppe, sem er svo ágætur. Þó engin þörf á að lesa allt heila klabbið fyrir sakir þessarar umræðu.

4 comments:

Anonymous said...

Ég vildi láta þig vita, Geir, að ég nota orðið "nýfrjálshyggja" sem þýðingu á enska orðinu "libertarianism". "Frjálshyggja" er gömul og vel ígrunduð íslensk þýðing á "liberalism".

Nú á "libertarianism" rætur í "liberalism", og því "ný" forskeytið. Ekki er með þessu ætlað að klekkja eitthvað mönnum -- orðið er notað á hlutlausan hátt. Kannski væri betra að koma með alveg glænýtt orð yfir "libertarianism" -- t.d. frjálsræðishyggja eða e-ð álíka.

Geir said...

Í leiðinni væri þá kannski við hæfi að finna nýtt orð yfir það sem Bandaríkjamenn kalla "liberal" sem á Íslandi þýðir frjálslyndur og í Danmörku þýðir oft frjálshyggjusinnaður.

Einnig vantar hlutlaust orð yfir þá sem kalla sig umhverfisverndarsinna en eru í raun vinstrimenn af gamla skólanum.

Að lokum vantar þjálla orð yfir þá sem kallast oft "öfga-hægrimenn" en eru í raun þjóðernissósíalistar með örlítið dempaðan áhuga á þjóðnýtingu framleiðslutækjanna.

Anonymous said...

Allur orðaforði manna í stjórnmálaumræðum er það sem ég myndi kalla "bloated and convoluted" -- stimplar eins og hægri og vinstri eru einfaldlega merkingarlausir -- anarkistar teljast sem vinstrimenn, en fasistar sem hægrimenn etc. -- algjörlega ótengdir viðkomandi stefnum. Ekki hjálpar svo að menn nota hin og þessi heiti sem bölorð, og finna upp nýja stimpla daglega. Þetta er mikið vandamál fyrir fræðibækur eins og Wikipedia (sjá t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Talk:Neoliberalism ).

Ég hugsa að það sé best að menn greini frá skoðunum sínum á skipulagðan hátt í stað þess að vísa í hinar og þessar stefnur. Sjálfur fyllist ég hryllingi við þá tilhugsun að vera hreinlega stimplaður "vinstrimaður" og þar með beint eða óbeint tengdur alls kyns forræðishyggjurugli eða andstöðu við markaðsöflin.

kv.

Sveinbjörn

Geir said...

Gömul tilraun af minni hálfu til að einfalda umræðuna:

http://thoughtsoficeandfire.blogspot.com/2004/12/what-are-you-in-politics-question-i.html

Önnur nýlegri birtist í Fréttablaðinu fyrir einhverjum vikum. Þarf að koma henni á netið við tækifæri.