Saturday, March 18, 2006

Heimahelgi

Mikið er ágætt að hanga heima og gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég ætla ekki að gera þetta að einhverjum vana en eftir langa veikindaviku með yfir 10 tíma vinnudögum er fínt að sofa í 12 tíma, glápa á grínþætti og hasarmyndir, lesa eigin skrif og annarra á veraldarvefnum, blogga, éta, sötra og sinna öðru því sem fylgir heimavistinni og þarf ekki að nefna.

Íslandshelgarför þarnæsta föstudag hvorki meira né minna. Er það bærinn á föstudagskvöldinu?

Vinnan verður víti á Jörðu næstu 7 vikur (hvað álag og fjölda vinnutíma varðar). Heilu risaverkefni hefur verið varpað á mig ofan á allt annað sem er í gangi svo samstarfsfélagi minn geti skroppið í fæðingarorlof. Þetta er gullið tækifæri til að sýna atvinnuveitandanum að ég get allt, kann allt, afgreiði allt og spjara mig í aðstæðum sem ég kann ekki á. Takmarkið "verða verðmætasti starfsmaður fyrirtækisins" er e.t.v. svolítið langt framundan, en ég mjakast nær.

Ætti ég að skella mér í eitthvað nám eða námskeið næsta haust? Erfitt að segja. Kjaftafögin getur maður lesið heima hjá sér. Óþarfi að láta kennara mata mann á "réttri túlkun" í þeim. Hagfræðin kitlar en ég veit að hún er meira spennandi á leikmannsstiginu en því námslega. Hvað með forritunarnámskeið? Vinnan gæti þurft á Visual Basic manni að halda, svo eitthvað sé nefnt. Læt þetta meltast aðeins.

Fasteignamarkaður Kaupmannahafnar er strembinn. Svo mikið er víst. Og að hafa umsjón með fasteign og að fimm manneskjur sinni sínum hlutverkum, bæði fjárhags- og verklega. Og með tíð og tíma mun ég birta niðurstöðurnar af litlu sósíalísku tilraun minni. Frumniðurstöður: Sameiginleg útgjöld eru stigvaxandi útgjöld.

2 comments:

Anonymous said...

Ætlum við semsagt að hafa sitt hvor útgjöldin, ég borga bara mitt rafmagn í mínu herbergi?

Hvað með stofuna?
-dadi

Geir said...

Ég er að VONA að sameiginleg útgjöld okkar verði stigvaxandi, en þá í bjór og vodka en ekki í ólívuolíu og hunangi.