Monday, December 11, 2006

Langblogg á mánudagskveldi

Daninn er að rækta úr mér Íslendinginn í stórum stíl núna. Ég er byrjaður að fara heim á skikkanlegum tíma og samviskulaust "sulta" mörg verkefni sem margir bíða eftir að verði leyst af því ég er búinn að vinna mína tíma þann daginn. Hræðilegt ástand satt að segja! Verð að taka mig saman í andlitinu (þarna fengu margir brandara í hausinn) og byrja vinna yfir mig aftur. Annað er auðvitað bara rugl.

Jæja, þá fór maður loksins yfirum með mörgum orðum, tenglaregni og harðorðum fullyrðingum. Tíminn mun leiða í ljós hver viðbrögðin verða.

Að allt öðru...

Nú vita allir Íslendingar að Baugur og félagar helltu sér út í dagblaðastríðið í Danmörku. Færri vita líklega að viðskiptahugmynd Fréttablaðins - að dreifast í hús endurgjaldslaust á hverjum morgni - tók Danina með buxurnar gjörsamlega niðrum sig. Tvö blöð spruttu upp úr þurru þegar þetta fréttist og Fréttablað Danmerkur (Nyhedsavisen) byrjaði því tilvist sína í bullandi samkeppnisumhverfi. Áhrifin hafa verið stórkostleg. Áður fyrr stóð valið á milli tveggja "götublaða" (sem er bara dreift í strætó og á lestarstöðvum), bæði troðfull af endursögnum frá fréttaskáldsögufyrirtækinu Ritzau. Í raun tvö blöð með sömu fréttirnar (þó örlítið mismunandi áherslur á mikilvægi þeirra og örlítið mismunandi sérflokkar innan þeirra). Núna hafa fæðst þrjú ný blöð sem vilja í raun og veru finna eitthvað fréttnæmt sjálf og skrifa sínar eigin fréttir. Ég hef blaðað í þeim öllum og finnst þau öll vera töluvert betri en götublöðin. Fyrir hægrisinnaðan pjakk eins og mig finnst mér Fréttablað Danmerkur þó standa upp úr. Þeir eru gagnrýnir og kokgleypa ekki alveg jafnhratt því sem læðist úr munni stjórnmálamanna. Enginn er fullkominn en Fréttablað Danmerkur er að mínu mati nær því en þessi vinstrisinnaða leðja sem flæðir út úr snípsleikjum Ritzau. Þá er það skjalfest.

Orðin "krútt" og "yndi" streyma núna inn á athugasemdir á þessari síðu. Ég krefst þess að þessi orð séu hundsuð og að ég verði áfram þessi ofursvali og harði nagli sem allir vita að ég er.

Ný matmálsstefna í hádeginu: Hætta að drekka vatn í miklum mæli.

Jólagjöf vinnunnar var færð okkur í dag. Valið stóð á milli þriggja gjafa og ég valdi þá sem samanstendur af 6x66cl Blue Mountain Stout auk einhvers trékassa undir þá (merkjavara, að sjálfsögðu). Þetta fjáraustur í jólagjafir er auðvitað eitthvað sem telst til frádráttar af bæði mínum launum og hagnaði fyrirtækisins, en ef þeir halda að svona gjafaregn haldi í starfsmenn og laði aðra að þá þeir um það. Fyrir mitt leyti held ég ekki. Vonandi fengu þeir a.m.k. vænan afslátt af bjórnum í skiptum fyrir auglýsingagildið, þótt ég hafi ekki hugmynd um hvar ég ætti að kaupa fleiri ef ég ánetjaðist bragðinu (og 6,6% styrkleikanum).

Voðalega hljómaði þetta samt neikvætt og nöldurslegt? Það var kannski ekki ætlunin. Jú, að vissu leyti samt. Jæja, engin niðurstaða hér og nú.

Dexter þáttur 11 dottinn inn og sængin kallar. Yfir og út!

4 comments:

Anonymous said...

Vel valin jólagjöf finnst mér. Stout bjór er miklu uppáhaldi hjá mér.

ps.
*hundsa => hunsa

Anonymous said...

Ooooo Geir, þú ert svo mikil rúsína

:)

Geir said...

Mér finnst alltaf eins og "hundsa" sé eins og að taka jafnmikið eftir einhverju og smalahundinum á bænum í gamla daga, nefninlega að taka yfirleitt ekki eftir honum! Jæja, ég hlýt að muna hið rétta einhvern tímann.

Haukur, bara sjálfur rúsína!

Anonymous said...

Auðvita ertu kallaður yndi og krútt því þúrt orðinn tjelling eins og þú réttilega minntist á hér að ofan, þó með öðrum orðum

GB bjór fæst annars í SuperBrugsen, jólabjórinn þeirra er ágætur.

Ég krefst þess að fá að drekka þennan bjór með þér, krefst!