Sunday, April 13, 2008

Undarlegt seinasta föstudagskvöld

Föstudagskvöldið mitt var vægast sagt furðulegt, eða í það minnsta athyglisvert. Lok vinnuviku hófust, venju samkvæmt, með því að hitta góða vinnufélaga í kjallara vinnustaðar mins og hefja helgina á bjór eða tveimur. Sötrið hófst kl 15 og ekkert annað stóð til að ljúka því um 5-6 leytið og halda heim á leið.

Fólk kom og fór en þegar klukkan var að ganga sex vorum við fimm drengir eftir, allir úr minni grúppu (Pipe Design Group). Núna varð umhverfið orðið aðeins verndaðara, bjórarnir orðnir margir og málbeinið því byrjað að losna. Næstu fimm til sex klukkutímar urðu að miklu sötri (einhver fann skotflösku) og umræðum um, já vitaskuld, vinnuna! (Smá hliðarumræður um hver er ríðulegust á vinnustaðnum og sitthvað fleira í þeim dúr, en aðallega vinnutal.)

Í ljós kemur að piltar þessir eru meira og minna alveg drulluósáttir við stjóra, vinnustaðinn, skýrslu- og ritgerðavinnuna, launin, forgangsröðun, yfirstjórn fyrirtækisins, aðbúnað á vinnustað og ég veit ekki hvað. Meira að segja ég fékk væna sneið sem umsjónarmaður eins "templatesins" okkar (rammi að verklýsingu fyrir verksmiðjuna sem þarf að fylla út fyrir hverja hönnun sem fer í framleiðslu - frekar leiðinlegt plagg get ég alveg játað).

Kvöldið endaði niðrí bæ en skot, mikil bjórneysla og lítill svefn eru ekki bestu vinir mínir svo ég entist ekki lengi þar - hélt því heim á leið í kringum miðnætti minnir mig.

Ég kem út úr þessu óplanaða, óformlega sötri með góðum drengjum með rosalega áttavilltan haus. Er allt svona ómögulegt þarna? Er farið með okkur verkfræðingana eins og skít á meðan verkefnastjórarnir geta unnið stutt og hafa öll völd og baða sig í vellystingum og hrósi viðskiptavinanna?

Ekki hef ég upplifað vinnustaðinn á sama hátt (og mun takmarkaðra þegar ég hef haft álíka upplifanir). Mér finnst við fá mikið frelsi en því fylgir mikil ábyrgð. Ósætti þarf að nefna við stjórann, og ef hann hlustar ekki að taka málið hærra í valdastiganum. Ef ekki er hlustað þá er atvinnuástandið (fyrir vélaverkfræðinga með reynslu) hér í landi einfaldlega þannig að uppsögn er sáraeinfaldur kostur.

Ekki ætla ég að stimpla allt sem ég heyrði sem rangt og ósanngjarnt. Fyrirtækið sem ég vinn hjá er að stækka gríðarlega hratt og verkefnaálagið hefur vaxið jafnt og þétt frá því ég byrjaði þarna. Kannski þarf bara ákveðinn "þroski" að gera vart við sig sem aftur leiðir til að fyrirtækið byrjar að nýta verkfræðinga í verkfræðivinnu og ritara í ritaravinnu. Kannski, en kannski ekki. Það er erfitt að vera verkfræðingur með mörg mismunandi verkefni á sinni könnu - marga verkefnastjóra, marga kúnna og allskonar verkefni sem ekki var hægt að sjá fyrir en þarf engu að síður að leysa. Kannski þurfi að kyngja einhverju af því slæma til að fá eitthvað af því góða. En kannski er hægt að breyta alveg um hugsunarhátt og stokka rækilega upp í verkaskiptingu á vinnustaðnum.

Nú veit ég ekki hvort einhver innbyrt gremja og reiði hafi fengið útrás sem muni á mánudaginn hafa afleiðingar. Kannski fellur allt í ljúfa löð eins og ekkert sé. Kannski fer ég að upplifa uppsagnir í kringum mig því fyrirtækið skellir skollaeyrum við öllum athugasemdum. Sjálfur er ég hálfáttavilltur en sé samt enga ástæðu til að taka sem heilögum sannleik tuð manna sem segja ekki til um gremju sína fyrr en í fjarveru stjóra og eftir 10 bjóra í vernduðu umhverfi, án þess samt að ég vilji stimpla allt tal þeirra sem vitleysu.

Mörg "kannski" hér, en það segir sennilega sitt um áhrif þessa kvölds á haus minn. Sjáum hvað setur þegar mánudagurinn keyrir allt á fullt á ný.

2 comments:

Anonymous said...

Og hvernig er staðan eftir tvo fyrstu vinnudagana?

Geir said...

Business as usual, nema ég fékk aðeins meira að gera eftir vinnufundinn í dag. Það er sosem í lagi, þessum veinandi Dönum veitir ekki af smá aðstoð.