Wednesday, June 13, 2007

Bræðingur úr Baunaveldi

Köben ætlar ekki að kólna mikið þótt skýin hafi mætt aftur eftir langt hlé. Hér er bullandi heitt og rakinn gríðarlegur. "Slæma" veðurspáin rætist e.t.v. á morgun, en kannski ekki. Óvissan er gríðarleg!

Sumir eru samt ekki jafnóvissir um áreiðanleika veðurspáa ef marka má ýmsar athugasemdir við sumar færslur á moggablogginu mínu. Kannski er heimurinn einfaldari ef "sérfræðingarnir" hafa bara rétt fyrir sér og þannig er það.

Fólk sem svarar tölvupósti á vinnunetfanginu kl 22 að kveldi til fær plús í minn kladda. Núna get ég skellt mér beint í eitthvað í fyrramálið sem hefði annars þurft að bíða eitthvað eftir.

Vinnan hefur samt ekki verið söm við sig í marga daga núna. Ég náði þó löngum degi í dag og grynnkaði aðeins á verkefnalistanum eins og hann leit út í morgun. Í lok vinnudags var listinn samt orðinn lengri. Er fjarvera frá vinnustað góð leið til að "klára" sitt?

Drottningarnar mínar eru svo ágætar að það er engu lagi líkt.

Í dag og í gær eru Danir að sanna að þeir eru e.t.v. ágætir í að hrinda af stað stórum opinberum verkefnum, byggja þau í nýjasta hönnunarstíl og ráða til sín sérfræðinga til að búa til það fullkomnasta sem völ er á - en svo tekur það við að reka kvikindið og þá klúðrar Daninn því alveg. Um er að ræða metro-kerfi Köben sem sýnir á sér allar myndir t.d. hins danska heilbrigðiskerfis (biðraðir, plástralausnir, örtröð, ruglingur). Seinasta vígi hinna dönsku almenningssamganga fallið? Vonum ekki, því ekki nenni ég að reka bíl!

Ég er að mýkjast með aldrinum hef ég tekið eftir. Ég er farinn að skilja kvenfólk meira en ekkert, skipti mér af og leysi vandamál sem koma mér ekkert við þannig séð og segi "sei sei" í staðinn fyrir "svei!" þegar fólk í kringum mig, t.d. á danskri lestarstöð, kann engan veginn að bregðast við breytilegum aðstæðum með breytilegri hegðun. Einnig er ég hættur að verða sá ölvaðasti í partýjum og byrjaður að passa upp á þá sem eru orðnir ofurölvi. Eru þetta tákn um að aldurinn sé farinn að segja til sín?

Næstu vikur verða góðar vikur. Ég sé bara ekki hvernig annað geti orðið raunin! (sjöníþrettán!)

3 comments:

Anonymous said...

sei í stað svei? ... þú ert greinilega málhaltur þegar þú ert ölvi!

Ingigerður said...

Húrra fyrir hækkandi aldri og þroska!!! ;)

Geir said...

Hver sagði eitthvað um þroska?! God forbid!