Sunday, January 07, 2007

Ahhh... home sweet home

Þá er ég kominn aftur í Holuna mína í Danmörku eftir þægilegustu flugferð ævi minnar (takk Daði!). Á núna aðeins meira tóbak og áfengi en áður, harðan disk troðfullan af efni (bless bóklestur!), brauðrist sem býr til Mikka mús merki á ristaðar brauðsneiðarnar (takk amma!), meira og minna öll föt mín þvegin og samanbrotin (takk mamma!), heilsan í blessunarlegu ólagi eftir gríðarskemmtilegt gærkvöldið (takk Burkni!), í nýju náttbuxunum mínum (takk systa!), og halla mér aftur í sófann með þráðlaust lyklaborð og mús á vömbinni (takk brósi!) með bjór í einni og smók í hinni.

Get ekki kvartað.

Á morgun tekur rútínan við á ný. Keypti 2 kg af nammi fyrir vinnufélagana og kominn með nógu mikið af pappírum til að tala við skattinn um frádrátt af skattstofni vegna greiddra vaxta árið 2006 (eitthvað sem ég hefði viljað vita fyrr að væri hægt!).

Núna er ég loksins orðinn nógu feitur til að geta sagt fitubrandara um annað fólk, þökk sé góðum og yndislega óhollum mat á Íslandi í tvær vikur. Ljómandi segi ég.

Komið hefur í ljós að ég er líklega best geymdur í útlandinu ef ég ætla mér að senda fleiri greinar um stjórnmál í íslensk dagblöð. Kannski maður láti berja úr sér þessa pólitísku áráttu einhvern daginn en enn sem komið er er nóg af henni eftir.

Gestir eru þegar byrjaðir að skrá sig til leiks fyrir vormisseri árið 2007 og ekkert nema gott um það að segja. Hótel Geir er alltaf opið fyrir gott fólk!

Yfir og út!

1 comment:

Anonymous said...

Mundu bara að vera stilltur út vorið eða flugferðin þín næst heim verður andhverfan af þessari, semsagt flug með Fraktflugvél frá Billund-flugvelli með millilendingu í Svíþjóð að ná í 80 hesta.

Mæli ekki með því.

Velkominn heim annars!