Tuesday, January 09, 2007

Handahófskenndar hugleiðingar

Danir eru skrýtinn flokkur fólks. Núna er sem sagt verið að plana "team building" í mínum hóp/deild/grúppu, og ekki virðist eiga spara neitt til! Einn hópurinn fór til dæmis til Íslands í helgarferð og setti þar með "kostnaðar"þakið við svona lagað í nýjar hæðir. Minn hópur virðist vera tala um skíðaferð til Frakklands í eina helgi. Meira að segja mjög fljótlega, jafnvel innan tveggja vikna. Ótrúleg kvikindi. Hvernig ætli rauðvín smakkist á skíðum? Kannski kemst ég að því fljótlega.

Mér tókst einhvern veginn að krækja mér í augnsýkingu á vinstra auga. Bara væg en samt óþægileg. Sem betur fer er ég snillingur í að fá apótekara til að koma í stað lækna og afgreiddi læknahluta lyfseðilsins með einu símtali sem svo varð að tölvuskeyti á apótekið. Húrra fyrir því að komast hjá biðstofubið á læknastofu!

Ég er víst hluti af hópnum "einfalt fólk" og kvarta ekki yfir því. Stundum verð ég samt voðalega flókinn (og þó) og þá kvartar flókna fólkið. Erfitt stundum að halda jafnvæginu í þessum blessaða netheimi (og raunar í öllum heimum).

Fyrir þá sem hafa áhyggjur af ísbjarnarstofni Norðurheimskautsins þá er ég með huggunarorð fyrir ykkur öll: Ísbirnir eru ekki í útrýmingarhættu!

Hvernig stendur á því að á hverjum einasta fjárans degi er einhver "frétt" um það hvað þessi eða hinn hópur Dana er stressaður og að springa á limminu á meðan miklu hraðara, dýnamískara og kraftmeira Ísland býður ekki upp á eina slíka frétt á rúmum tveimur vikum? Hvernig getur þjóð með 25% fólks á "vinnualdri" utan vinnumarkaðar verið svona stressuð? Kenning stjóra: Danir setja svo strangar kröfur á sjálfa sig, t.d. að allt eigi að vera fullkomið - húsið, fjölskyldan, vinnan osfrv, og það höndla bara ekkert allir. Er til betri kenning?

Little Britain er fyndið.

Árátta Dana fyrir "hóp prófum" er mér alveg ofviða að skilja.

Hérna er danska ríkisútvarpið að segja að frá og með 1. janúar þurfi að vera tölvu-, internets-, farsíma- og útvarpslaus til að losna við afnotagjöldin. Hið nýja danska kerfi er sniðugt fyrir íslenska vinstrimenn í leit að fleiri leiðum til skattheimtu.

Iceland Express heldur sína árlegu afmælisútsölu á flugmiðum á morgun og hvet ég alla sem hyggjast kíkja út fyrir 31. mars að skella sér á hana! Fyrir sjálfan mig passar tímabil útsölumiðanna ekki ýkja vel svo ég sleppi því alveg að reyna að þessu sinni.

Brósa óska ég til hamingju með nýja starfið og sigur í orustu í stríði hans við borgina.

2 comments:

Anonymous said...

Hvaða orusta var það?

Geir said...

You'll see....