Full en edrú vinnuvika nánast á enda núna og það er ágæt tilfinning. Svei mér þá ef ég næ ekki öllum þeim vinnustundum sem starfssamningur minn kveður á um. Engir 40+ tímar eins og lagt var upp með en það er í lagi. Afköstin voru ágæt og það er fyrir öllu.
Annað kvöld er sötur með góðum vinnufélögum og hver veit nema Daði láti sjá sig í Köben. Ég hlakka til morgundagsins!
"Á Íslandi passar velferðarkerfið upp á þá sem þurfa á hjálp að halda. Í dönsku velferðarkerfi eru allir að ræna af öllum." Þessi lýsing mín á muninum á Íslandi og Danmörku mætti töluverðum skilningi meðal Dana í hádegispásunni um daginn. Ég held ég haldi mig við hana þar til mér dettur eitthvað annað í hug.
Það er ekki alltof þægilegt að skrifa liggjandi láréttur upp í sófa, en það hefst!
Eins ágætt og það er að vera einhleypur þá er líka svo ágætt að vera svolítið skotinn. Fyrir mér fer þetta tvennt ágætlega saman. Einhleypninni fórna ég varla fyrir nokkuð, en að vera skotinn heldur manni svolítið vakandi.
Ég fullyrti fyrir ónefndri manneskju um daginn að ef ég þekki aðstæður nægilega vel þá hef ég aldrei rangt fyrir mér. Ég tel mig hafa rétt fyrir mér um það!
Danir tala varla um annað núna en Tour de France og Danann sem er nýbúið að draga úr keppninni eftir grun um að hann hafi ekki sagt rétt frá um hvar hann var á æfingartímabilinu fyrir keppnina og þar með er hann er grunaður um neyslu bannaðra/ólöglegra lyfja. Ég hef mótmælt hástöfum á vinnustaðnum yfir þessu leiðinlega umræðuefni en því nöldri hefur verið mætt með enn meiri umræðum og ég alltaf dreginn inn í þær. "Hva, er enginn Íslendingur að taka þátt?" er ágæt leið til þess. Danir eru svo einlæglega saklaus grey að ég get ekki annað en fyrirgefið þeim.
Hver er munurinn á því að nokkrir kaupi fyrirtæki og að margir kaupi það? Svarið verður sennilega bráðum: Mismunandi lög! Það er yfirleitt niðurstaðan þegar stjórnmálamenn finna sér nýtt áhugamál.
Eftir u.þ.b. tvær vikur flyst vinnustaður minn frá Brøndby á höfuðborgarsvæðinu og til verksmiðju okkar í Kalundborg á Vestur-Sjálandi, og (skyldugum) vinnudögunum fækkar úr fimm dögum á viku og niður í þrjá. Svona mun það vera í fjórar vikur. Ég hlakka mikið til! Verksmiðjan okkar er svo ágætur staður. Það er eitthvað við margslungnar vélar og flókna framleiðslutækni sem heillar mig.
Yfir og út í bili. Húrra fyrir ykkur!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment