Monday, September 25, 2006

Mæðudagur til mikilla afreka

Nei, ekki til mikilla afreka. Samt furðuhress miðað við að helgin fór í fyrirlestra, einhverja en þó hóflega drykkju, lítinn svefn og það allt.

Ég fékk næstum því innblástur til að skrifa grein í gær en endaði þó bara á örlitlum skrifum á netið [1|2] en ég gleð samt fólk með því að segja að grein er handan við hornið!

Textpad hefur sparað mér ófáa tugi klukkutíma.

Einn samstarfsfélagi minn og sessunautur á vinnustaðnum talar endalaust, stundum til mín, stundum til annarra á skrifstofunni og stundum við sjálfan sig. Hvort á ég þá að skrúfa upp í tónlistinni til að heyra ekkert eða niður til að heyra allt ef ske kynni að eitthvað liggi við? Nú eða segja mér eldri og reyndari manni að halda þverrifunni lokaðri. Ég held ég sé of vel upp alinn til þess.

..endaði þó á því að segja honum að velja upphátt sagðar setningar sínar með "omhygge" og hann fattaði skotið og tók vel í það. Þönder.

Íslenskt baktal hefur einn umtalsverðan kost yfir danskt baktal. Í Danmörku baktala allir alla um eiginlega allt og yfirleitt eru skotspónar baktalsins engu nær um hvað er sagt og af hverjum (ég hef í mesta lagi fengið smjörþefinn í mínu tilviki). Á Íslandi eru baktalsumræðuefnin örlítið takmarkaðri og einstaka sinnum kemst upp um allt - hvað var sagt og af hverjum. Sá sjaldgæfi möguleiki gefur íslensku baktali óneitanlega forskot, segi ég.

BP, stundum kallað British Petroleum, voru svo vænir að gefa öllum starfsmönnum atvinnurekanda míns tösku fulla af öryggisbúnaði. Núna á ég hamar til að brjóta rúðu, brunateppi, endurskinsvesti og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hirði auðvitað brunateppið (eða gef Brennu-Daða það) en spurning um að reyna selja hitt? Það eða geymslan.

Stundum er EKKI gott að hafa "skoðanir á öllu", t.d. ekki þegar maður er alltaf sá sem talar meirihlutann af tímanum á öllum fundum, óháð lengd fundar, fjölmenni hans og umræðuefnum.

Tuðgáttin (mjög meðvitaður um leiðinlegheit nöldurs en ég læt það samt flakka):
- Vinnutölvan mín er úrelt fyrir löngu fyrir þessi bévítans forrit sem ég er að keyra, allir vita það, ég hef rætt það en það eina sem gerist er að mér er sagt að réttlæta og bíða. Þetta er byrjað að fara í taugarnar á mér. 80% af þessum degi fer líklega í að bíða.
- Áður en ég fór á fund með deildinni minni áðan hélt ég að eftir vinnu á fimmtudaginn væri stefnan sett á að hittast heima hjá einum í deildinni og grilla saman og drekka bjór. Eftir fundinn komst ég að því að þetta væri orðið að heilsdagsprógrammi með þéttri dagskrá og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var sé eini sem kom af fjöllum (enda haft litla þolinmæði til að fylgjast með á hópfundum). Ég er ekki hress með þetta enda var frí á fimmtudaginn ekki alveg það sem stendur á planinu mínu. Meira að segja frír bjór hljómar ekki nógu vel til að bæta upp röskun plansins. Núna er ferlið samt komið svo langt að ég þarf að melda mig frá og hafa fyrir því ástæðu.
- Þrjóska fjárans verkefni sem ég sit á. Þrír mánuðir af sama hjakkinu taka á.

Mikið er allt neikvætt og ömurlegt í dag ef marka má undangengin skrif. Ástandið er samt ekki alveg svona slæmt. Útrásin birtist hérna. Fólk í kringum mig sér mig í skínandi skapi og spurning um að drulla sér út í skínandi og vart þolanlega heita sólina?

2 comments:

Anonymous said...

Svona svona enga neikvæðni Geir. Það er nú ekki langt í að þú eigir von á þremur fögrum yngismeyjum frá klakanum.
Minni þig á dagana 5-9 okt. hér með þar sem áætlunin er að drekka bjór, njóta góða veðursins, drekka bjór, kíkja kannski á Strikið og já drekka bjór (var ég nokkuð búin að nefna það).

Geir said...

Vissulega ljómandi gott plan það og tvímælalaust til að bæta skrauti á jólatré jákvæðni.

Mikið er maður skáldlegur í dag.