Wednesday, August 03, 2005

Pólitískur rúntur

Hressandi Múrs-grein sem fjallar um áhuga Katrínar Jakobsdóttur á að kíkja ofan í launaumslög samborgara sinna með hjálp ríkisins, og áhuga hennar á að fjarlægja svolítið meira af launatölunum sem hún kíkir á til að draumur hennar um bíllaust Reykjavík geti ræst.

Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar hefur líklega aldrei verið flengdur jafnrækilega í mörg ár eins og síðustu daga. Fyrst skrifar hann grein í Morgunblaðið þar sem hann heimtar aukin opinber framlög í menntakerfið. Fyrir það er hann flengdur með pistli á Vefþjóðviljanum sem byrjar þannig að allir haldi að verið sé að fjalla um grein eftir Ögmund Jónasson, en er síðan eftir Bolla Heimdelling.

Bolli unir þessu auðvitað ekki og skrifar athugasemdir við flenginguna sem hann fær Vefþjóðviljann til að birta. Það gerir Vefþjóðviljinn auðvitað, en ekki fyrr en farið hefur verið yfir það hvernig vond hagfræði verður oft til þess að menn vilja ota sínum tota og láta ríkið styðja sína eigin hagsmuni án þess að huga að öðrum hópum samfélagsins, þ.e. þeirra sem borga reikninginn og fá sína hagsmuni skerta. Ekki þarf að hugsa sig lengi um til að sjá að verið er að flengja Bolla í því spjalli - aftur! Snilld. Ætli Bolli geri fleiri athugasemdir?

Á vígvöll vinstrisins er nú komin ný stjarna, Finnur Dellsén, sem skrifar sem óður sé fyrir Múrinn um þessar mundir [1, 2]. Þetta eru slæmir fréttir fyrir Múrinn. Þar hafa að jafnaði verið góðir pennar sem passa sig á að segja ekki eintóma vitleysu þótt þeir skrifi sjaldnast á þann hátt að ég sé sammála (já, oft er ég ósammála einhverju þótt mér finnst það ekki vera vitleysa). Tvö dæmi: "Gæti hugsanlega verið að aðgerðir Bandaríkjahers í Írak og Afghanistan hafi ekkert með lýðræði og umbætur að gera, heldur séu þær ósköp hversdagsleg hagsmunagæsla?" Auðsvarað: Afghanistan var ekki á neinn einasta hátt ógn við veldi Saudi-fjölskyldunnar, og Írak hefði verið auðsigrað ef Saddam hefði ráðist á Saudi-Arabíu. Finnur eyddi hins vegar heilli grein í að komast að þessari nýju samsæriskenningu sinni.

Annað dæmi eftir Finn: "Engu að síður er það grundvallarforsenda frjálshyggjunnar að peningar séu eftirsóknarverðara en allt annað – hvernig væri annars hægt að réttlæta það að þeir sem eiga meira af þeim njóti meiri réttinda?" Whut tha..? Þessari og öðrum furðulegum fullyrðingum um hvað annað fólk en skoðaðabræður Finns nota til að rökstyðja hugsjónir sínar er svarað stuttlega hér og er vonandi að Finnur lesi þann litla texta og láti af ég-tel-mig-geta-skáldað-rök-annarra-því-ég-er-ósammála-öðrum skrifstíl sínum.

Múrinn er sjálfsagt í hálfgerðu sumarleyfi núna svo ég á svona yfirleitt ekki von á því að Finnur haldi þar áfram.

Hvenær ætli nýju bolirnir mínir komi svo? Eftir eina miðbæjarferð um helgi í þeim hlýt ég að hafa útvegað mér eins og nokkur slagsmál enda er tískan hér fólgin í að ganga um í rauðum bolum með mynd af fjöldamorðingja, nafn harðstjórnarríkis eða einkennistáknum þjóðernissósíalista á sér. Mínir bolir eru ekki alveg á þeirri línu.

No comments: