Friday, August 05, 2005

Þá er það föstudagurinn

Þökk sé gríðarlegri mótstöðu líkamans að drattast á lappir í morgun var ég ekki mættur til vinnu fyrr en í hádegismatnum. Fyrir vikið dúsi ég hér enn, klukkan fjögur á föstudegi, og hamast í því sem þarf að hamast - þreytuþolsreikningum! Hljómar alveg gríðarlega spennandi er það ekki? En á meðan vélin reiknar þá er um að gera að skrifa eitthvað.

Mikið finnst mér ég hafa skrifað ágætan texta um frelsi á ensku síðuna mína. Ég mátti bara til með að segja frá því.

Talandi um skrif já, mig vantar innblástur í næstu Fréttablaðsgrein. Ég er með tvær í vinnslu en er einhver með innblástur ef ég stranda á þeim?

Helgin er blessunarlega óplönuð og það er ágætt. Síðasta helgi leiddi til vinslita. Ég er ekki frá því. Lífsins langi ólgusjór með hæðum og lægðum. Svona er það nú.

Nú er ég ansi hræddur um að Muzakinn (auk vina) eigi eftir að ausa úr skálum reiðar sinnar, a.m.k. ef marka má viðbrögð hans við þessum texta mínum á Ósýnilegu höndinni. Nú hefur Vefþjóðviljinn kallað skemmdarvargana norðan Vatnajökuls (oft nefndir "mótmælendur" í fréttatímum) sínu rétta nafni, nefninlega skemmdarvarga, og það ætti að ýfa einhverjar fjaðrir á páfuglunum sem kalla sig umhverfisverndarsinna (en ekki ég).

Eitt er að vera ósammála og beita ræðu og riti til að koma skoðunum sínum áleiðis. Eitthvað allt annað er að valda spjöllum og eyðileggingu, eða sína svoleiðis athöfnum samúð með annaðhvort þögn eða skömmum á þá sem fordæma eyðileggingu og spjöll.

Að léttara hjali - Ísland heilsar eftir 13 daga. Menningarnæturkvöldið verður eðalrokk. Er einhver til í að vera fullur á fimmtudagskvöldið 18. ágúst eftir kl 23, föstudagskvöldið (döh!), sunnudagskvöldið og kannski eitthvað létt á mánudagskvöldið? Nánari tímasetningar fara eftir duttlungum fjölskyldumeðlima og edrú fólks.

1 comment:

Burkni said...

Jeeee ítra!