Thursday, October 19, 2006

Óli vinnufélagi

Þessi færsla er mikið til skrifuð í vinnutíma og er sjálfsagt eintómt froðusnakk að mati flestra. Hún hefur það þó sér til ágætis að vera að mestu laus við pólitík!

Mikið getur góður samstarfsfélagi gert vinnustað að skemmtilegum stað. Verkefnishópurinn sem ég tilheyri er "lokaður" af í stórri skrifstofu með fjórum plássum og ég og Óli (Ole) yfirleitt einir í henni enda hin tvö dugleg að skiptast á að vera í fríum, veikindum (sinna eða barna sinna) og erindagjörðum (vinnu- og óvinnutengdum). Mikill og súr einkahúmor er byrjaður að þróast á milli mín og Óla og greyið annað fólk sem stingur nefinu hingað inn. Miskunnarlaus kaldhæðni, brandarar sem spanna allt sem ekki má segja, hárbeittar móðganir, vinnustaðaeinelti og hreint og klárt bull og lygi um sig og aðra er uppistaðan í 90% okkar samskipta. Afgangurinn fer svo í að vinna ákaflega vel saman og vera nokkurn veginn á svipaðri bylgjulengd með það sem þarf að gera til að vinna fyrir laununum.

En ég er einmitt með kenningu um hvað veldur: Pilturinn veit að húmor er nauðsyn alls staðar og að það þýðir ekkert að taka sig of hátíðlega þótt maður taki vinnuna hátíðlega. Hann Óli er líka gagnrýninn piltur, bæði á torskildar ratleiðir í gegnum frumskóg pappírsvinnu og ferla sem óhjákvæmilega fylgja olíu- og gasiðnaðinum, og tortryggni á fjárþorsta og fyrirferð ríkisvaldsins; að mínu mati mjög skyldar efasemdir á yfirborðinu (þótt pappírskröfur olíufyrirtækja annars vegar og ríkisins hins vegar séu af MJÖG ólíkum toga og gjörólíku eðli).

Hann hefur einnig vit á því að halda sér frá föstu sambandi við kvenfólk. Hugsanlega liggja samt aðrar ástæður á bak við einhleypni hans en mína - ég kýs að vera laus við reglulegt samneyti við hitt kynið (sosem enginn þrýtingur í áttina að öðru) en hann hefur ekki gefið neitt upp um það, hvorki af eða á.

Óli er hress og minnir mig á margt sem ég sé í hinum ágætustu vinum mínum. Er það ekki hreinlega uppskriftin að góðum vinnufélaga? Einhver sem minnir mann á vini sína? Það held ég. Ég á heldur ekki leiðinlega vini. Ef Óli minnir mig á vini mína þá er hann skemmtilegur.

2 comments:

Anonymous said...

Hvað varð um Geir Snakker?
Nú er Geir Taler?


Þrándur

Geir said...

Er rétt-a-r-a svona. Búinn að vita það lengi en ekki nennt að breyta.

Með "snakker" yrði þetta að vera "Geir i Danmark snakker" eða "Geir snakker" eða álíka.