Sunday, October 01, 2006

Létt þýðing

Hressandi innsæisfull athugasemd (héðan):
Umhverfisverndarhreyfingin heldur því fram að ekki sé hægt að treysta á vísindi og tækni til að reka kjarnorkuver á öruggan hátt, framleiða skordýraeitur sem er óhætt að nota, eða jafnvel baka brauð sem er óhætt að borða, ef sá brauðhleifur inniheldur tilbúin rotvarnarefni. Hins vegar þegar kemur að hitnun á lofthjúpi jarðar kemur í ljós að það er ein grein vísindanna sem umhverfishreyfingin sýnir alveg sláandi traust á - grein sem þar til nýlega hefur ekki notið trausts jafnvel hörðustu stuðningsmenn vísinda og tækni. Umhverfishreyfingin vill meina að eina grein vísinda og tækni sem stendur svo vel að vígi að við getum sýnt henni ótakmarkað traust sé sú spá fyrir um veðrið - næstu hundrað árin!
Hið sama mætti sennilega segja um þá sem tjá sig hvað háværast um meinta hættu af sprungum í Hálslónsstæðinu; verk- og jarðfræðingum er ekki treyst til að byggja stíflu á sprungusvæði á meðan veðurfræðingum er treyst til að spá fyrir um veðrið, 100 ár fram í tímann!

En svo það sé á hreinu þá er ég ekki mikill stuðningsmaður ríkisframkvæmda og Kárahnjúkavirkjun er ríkisframkvæmd. En að ég ætli mér að taka umræðu um burðarvirki virkjana og jarðfræði sprungusvæða við menntaða íslenskufræðinga er ekki alveg á dagskránni (sá einmitt hagfræðing og íslenskufræðing rífast um Hálslónsstæðið í Kastljósi í sumar og þótt skondið).

6 comments:

Anonymous said...

Mar spyr sig hvort að þetta hafi verið eitthvað skot á mig?

Geir said...

Ekki viljandi af minni hálfu en kannski skrifaðir þú eitthvað um eitthvað sem settist í undirmeðvitundina og varð að blogginnblæstri, erfitt að segja!

Anonymous said...

Ekki ómerkari menn en Magnús Tumi jarð-eðlisfræðingur hafa efast um stífluna, ekki burðarvirki hennar heldur undirlög hennar og mögulega sprungumyndun. Á stjórnarfundi í Landsvirkjun, þar sem væntanlega komu saman 2 bakarar, 3 viðskiptafræðingar og 4 íslenskufræðingar var ákveðið að þetta væri ólíklegt og ekki þess virði að rannsaka nánar.

Íslenskufræðingarnir læra það í háskóla að það sem er skrifað á að vera skrifað rétt, ekki hægt að sakast við innsæið þeirra, aftur á móti má efast um greind þeirra þegar þeir taka að sér stærri mál.

Geir said...

Sjálfsagt auðvitað að hafa áhyggjur af öllu mögulegu og vera gagnrýninn á ráðstafanir eða skort á þeim undir öllum kringumstæðum.´Sérfræðingarnir eiga hins vegar að deila um tæknilegu atriðin á meðan við hin eigum að vera dugleg að bauna einu þeirra á móti öðru. Sprungudeilur eru samt ekki pólitískt deilumál nema spillingarásakanir á hendur Landsvirkjun séu þeim mun stærri.

Burkni said...

Landsvirkjun á ekki einkarétt á spillingunni í kringum þessa virkjun, þar kemur stjórnin að sjálfsögðu inní.

Annars þykir mér ansi ómarktækt að eigna hópnum "umhverfisverndarsinnar" ofangreind ummæli, sérstaklega þetta mikið matreidd. Umhverfisverndarsinnar eru nefnilega ansi ólíkir innbyrðis, til dæmis eru til:
(einfaldur dilkadráttur, ég veit, en í grófum dráttum rétt)

1. Ofstækisfullir umhverfissinnar sem eru á móti öllu sem raskar umhverfinu, þar á meðal skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda.
2. Hófsamari umhverfissinnar sem skilja mikilvægi þess fyrir hagkerfi heimsins og velferð mannanna að nýta auðlindir en stunda ekki rányrkju og skeytingarleysi fyrir komandi kynslóðum.

Það er voða auðvelt, Geir, að fella alla sem sýna umhyggju fyrir umhverfinu í flokk 1 og kalla þá græningja og kommúnista og hvaðeina, sérstaklega ef maður hefur tekið þann pól í hæðina í lífinu að gleypa við öllum skilaboðum hráum sem fjármagnseigendur og einkahagsmunaaðilar þessa heims koma á framfæri með skammtímagróðasjónarmiðum.
Það er hins vegar ekki rétt.

Geir said...

Já þessir blessaðir auðjöfrar sem sitja bak við tjöldin og múta vísindamönnum til að vera ósammála hinu augljósa sannleik.

Þýðingin er góð og gild þótt nákvæmlega tilvitnunin sem ég tek og ræði sé ekki tæmandi skilgreining á allri flóru þeirra sem hafa skoðanir á landnotkun ríkisins og annarra eigenda lands og mögulegra auðlinda á því.

Sjálfum þykir mér mjög vænt um umhverfið en get því miður ekki ráðskast með eigur annarra og geri enga kröfu á það heldur.