Monday, November 28, 2005

Teiti eða ekki

Stóra spurningin: Á ég að halda einhvers konar teiti á föstudagskvöldið? Tilefnin eru nokkur og misveigamikil. Hið sísta er afmælisdagur minn næsta sunnudag. Hið stærsta er Kaupmannaheimsókn mikilla höfðingja. Ég þarf að fara ákveða mig fljótlega.

Nú veit ég að afmælistal á það til að vekja upp gjafakaupahugsanir hjá hinum og þessum. Allar ódrekkanlegar afmælisgjafir eru fyrirfram afþakkaðar, nema þær séu þeim mun fyndnari og ónothæfari.

Í dag er einn af þessum dögum þar sem ég dreg miskunnarlaust af mér tvo viðverutíma í vinnunni þegar ég skrifa niður tímana mína á eyðublað vinnuveitandans. Slíkur er hægagangurinn á manni núna. Ég og ræstingarfólkið munum bráðum hafa eytt meiri tíma saman á skrifstofunni en ég og margur fastur dagvinnustarfsmaðurinn hérna.

Ekki tókst mér að beita mínum gríðarlegu áhrifum innan hins ágæta félags Frjálshyggjufélagsins til að fá Jólahvaðinu frestað um 1-2 daga. Þetta er náttúrulega bara hneyksli.

Núna er ég með gríðarmikinn lubba á höfðinu sem er haldið í skefjum með harkalegustu aðferðum sterkustu hármótunarefnanna. Niðurstaðan er nokkuð sem má kalla dópistalúkkið (Tommy Lee gefur tóninn). Dópistalúkkið hefur sína kosti, t.d. þann að maður lítur út eins og dópisti, en ókostir eru líka margir. Sturtan tekur lengri tíma, þurrkun eftir sturtu tekur lengri tíma, sekúndur fara í að ýta hárinu niður (eða upp eða aftur á bak eða til hliðar, allt eftir skapi) og þar að auki felst kostnaður í þessu. Sumsé, tímasóun og peningasóun. Á móti kemur að ég lít út eins og dópisti. Erfitt val.

Hvað um það. Hvað þarf maður eins og ég á að halda í ferðatölvu, og kannski það sem mikilvægara er, hverju þarf ég ekki á að halda? Ég spila ekki tölvuleiki, sörfa töluvert, finnst gaman að eiga mikið af tónlist, vil geta brennt á disk, þætti allt í lagi að geta reiknað eitthvað í hófi inn á milli og nenni ekki að fara með tölvu í viðgerð með reglulegu millibili.

6 comments:

Anonymous said...

Jeee, teiti!

Anonymous said...

Er þá ekki bara að koma 1-2 dögum fyrr og ná í jólahvað?

Þrándur

Anonymous said...

Ég er líka ALLTAF til í sötur, verst að þú kvartar eins og tjelling yfir því.

Áfengisdrykkja Desember nær hámarki 17 desember þegar ég kem AFTUR til DK og í þetta skiptið á JuleFrokost.

Góðar stundir.
.daði

Geir said...

Daði vandamálið við að þú sért ALLTAF til í sötur er að þú ert ALDREI á sama landi nógu lengi til að ALLTAF sé meira en ein helgi eða svo!

Þrándur: Ef ég væri ekki með haug af deadlines sem ég þarf að ná og lágmarka svik á þá hefði þessi möguleiki verið skoðaður.

Anonymous said...

Við sjáum til næsta haust hvor okkar fer að gráta. Þú fórst að gráta eftir eina helgi með mér, hvað þá heilt ár

"Þessi maður er ALLTAF til í sötur og ég mæti ALDREI í vinnu" er bloggið þitt eftir 10 mánuði.

Hvenær er lending á íslandi annars? -d

Geir said...

Tjah einhvern tímann um kvöldið og ég kæri mig ekki um neitt grín í tollinum því ég verð "loaded"!