Thursday, April 14, 2005

Fíknin

Ég fann stórkostlega bók í gær - Politikens bog om politiske ideer. Vissuðið að allur grundvöllur Marxisma/kommúnisma byggist á úreltu módeli um verðmyndun á markaði sem aftur er komið frá hinum mæta manni Adam Smith? Þetta stendur ekki beint í bókinni en svona er það nú samt. Vissuðið að allt sem heitir "vinstristefna" í dag er í raun lítið meira en lítið frávik frá klassískri frjálshyggju? Séð í sögulegu samhengi auðvitað. Vinstrið er ekki lengur að berjast fyrir sameign á framleiðslutækjum. Vinstrið í dag er hugmyndafræðilegur ágreiningur frjálshyggjumanna fyrir 200 árum.

Ég fullyrði hér með að Weekendavisen sé besta "dag"blað Danmerkur (kemur að vísu bara út einu sinni í viku, en þið skiljið). Magnað er samt að hugsa til þess að nokkur blöð með útgáfu einu sinni í viku hafa verið að fá ríkisstyrki til niðurgreiðslu á útburðargjöldum sínum! Reyndar fá öll dagblöð Danmerkur þessa ríkissporslu en nú á að afnema hana fyrir blöð sem koma út sjaldnar en 5x í viku. Ég skil ekki hugsunina bak við þessa hringavitleysu ríkisstyrkja á lesefni, og af hverju að afnema hana á sumum en ekki öðrum, eða yfirleitt hafa hana á einhverju lesefni sem er dreift með pósti?

Blöðin sögðu frá því um daginn að ný norsk skýrsla um vændi í Svíþjóð og Hollandi hefði sýnt fram á að lagabreyting sem flytur lögbrotið frá seljanda vændis yfir á kaupanda vændis hefði óteljandi margar mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér, t.d. og sérstaklega þá fyrir vændiskonurnar sjálfar (lækkandi verð fyrir þjónustuna, lögreglan fengi engin vitni gegn mannsmyglurum og ofbeldismönnum, öryggi vændiskvennanna snarminnkað, osfrv). Fékk þessi skýrsla einhverja athygli á Íslandi eða þarf ég að taka að mér fréttaritarahlutverkið sjálfur?

No comments: