Sunday, April 15, 2007

Afslöppun sjaldan meiri

Alveg gríðarlega róleg helgi nú senn á enda. Ég hef ekki gert handtak (nema pistlaskrif, yfirlestur og heimilisstörf, drukkið bjór, kók og kaffi, farið í klippingu, horft á Seinfeld og niðurhalað klámi) og náð svefninum mínum og eitthvað af bræðandi sólinni úti og tel mig vera tilbúinn í slaginn sem tekur við í vinnunni á morgun. Hafnaði meira að segja ágætu boði um síðdegisbjór í sólinni, en það var vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Laaaangur vinnudagur flesta vikudagana býst ég við! Úff.

Á þriðjudagskvöldið er húsfélagsfundur með langri dagskrá. Ég ætla að mæta og kjósa neitandi við öllum útgjaldatillögum umfram þær sem lúta að viðhaldi sameignar. Engan nýjan leikvöll takk fyrir! A.m.k. ekki á reikning húsfélagsins. Ekki ef ég fæ einhverju ráðið.

Íslenskar skoðanakannanir taka á sig hefðbundið mynstur í aðdraganda kosninga: Sjálfstæðisflokkurinn rýkur upp en mælist of hár miðað við það sem hann mun fá, Framsókn rís hægt og bítandi en mun fá enn meira í kosningum en skoðanakannanir mæla, Samfylkingin stefnir á sitt hefðbundna fylgi sem næststærsti flokkurinn á meðan VG lækkar og lækkar, og afganginn hirða Frjálslyndir. Gamla góða í nýjum umbúðum.

Hvernig stendur á því að margir sem hrópa "einokun" og "fákeppni" og "okur" í tengslum við starfsemi nokkura olíufélaga, banka, tryggingafélaga osfrv. eru oft þeir sem vilja bara að einn aðili sjái um að lækna okkur og mennta?

Hvernig stendur á því að þeir sem vilja að Ísland sé "fjölmenningarsamfélag" og "opið öllum" séu oft þeir sem vilja að ríkið banni með lögum ákveðna starfsemi á svokölluðum helgidögum kristinna manna?

Ætli nú sé komin röksemd fyrir því að Íslendingar eigi að kasta krónunni og taka upp bandaríkjadal? Svo mætti ætla miðað við svipað tal um evruna (þ.e. að af því eitthvað fyrirtæki tekur upp mynt sé það talið til röksemdar fyrir því að sú mynt eigi að koma í stað krónunnar hjá öllum öðrum).

Nágranni minn sem býr beint undir minni íbúðarholu er ansi skrýtinn. Hann fær oft vini í heimsókn og þeir öskra og hrópa og berja í gólf og veggi með reglulegu millibili, hvort sem það er að degi til eða nóttu, um helgi eða á virkum dögum. Mér fannst þetta pínu óþægilegt í byrjun, en núna sé ég kostina við hávaðasaman nágranna t.d. sem merki um að það búa ekki eintómir ellilífeyrisþegar í byggingunni. Einnig að hávaðasamur nágrannir gerir að þegar ég held heimboð (þar sem áfengi er haft við hönd) þá mun enginn taka neitt sérstaklega eftir því, því miðað við nágranna minn getur ekki verið að ég og mitt fólk höfum sérstaklega hátt, og verðum þar með ekki kveikja að kvörtun.

Ég fann "Í skugga hrafnsins" á torrent, og mikið gladdi sú mynd mitt þjóðveldis-áhugasama hjarta. Þessi mynd hefði aldrei verið gerð í dag. Í henni er selur drepinn með skutli og kylfu (þykir vera ófínt í dag), hvalur hlýtur að hafa verið útvegaður líka (það á víst að skaða ímynd landsins), hestum er att út í hestaat (beinlínis ólöglegt), aðalkvensöguhetjan er líka sýnd sem kynvera (þykir ófeminískt í dag), og svona mætti eflaust lengi telja. Ég þakka bara fyrir að það er til eitthvað sem heitir "í gamla daga".

Svo virðist sem sumir frjálshyggjumenn séu orðnir þreyttir á að reyna breyta löndum innan frá og vilja núna stofna ný ríki út á hafi þar sem enginn hefur ekki gert tilkall til yfirráða. Ég sé nú ekki alveg hvernig þetta á að ganga upp, en hugmyndin er athyglisverð engu að síður (bæði sem aðgerð gegn yfirráðum ríkisins og sem tæknileg áskorun).

Nú er liðin næstum því vika síðan frelsi.is var síðast uppfærð, og lesendur þeirrar síðu því búnir að góna á smettið á mér í hverri heimsókn í ansi langan tíma. Hverju veldur, svona rétt fyrir kosningar þegar það er gríðarlega áríðandi að halda sér við efnið svo vinstrið nái ekki völdum?! Tek það fram að ég er ekki búinn að skrá mig í Sjálfstæðisflokkinn þótt ég hafi fóðrað unga sjálfstæðismenn á nokkrum orðum.

Ég hélt að ég hefði einfaldað tilveru mína með því að skipta alfarið yfir í svarta sokka. Því miður eru ekki allir svartir sokkar bara svartir sokkar. Ég þarf að ég held að rýma sokkaskúffuna algjörlega og kaupa 60 pör af sömu gerð samtímis til að ná tilætluðum árangri.

Þetta er orðið ágætt sem sunnudagshugleiðing(ar). Þeir sem eru sólgnir í meira lesefni (eftir mig) er bent á Ósýnilegu höndina, moggabloggið og kannski Fréttablaðið prenti eitthvað í vikunni.

Yfir og út!

2 comments:

Anonymous said...

Þú ert svo afkastamikill, það er með ólíkindum :)

Geir said...

Svona fer sjónvarpsleysið með mann! Aðgerðaleysi verður alltaf til einhvers, einhvern veginn.