Ég skil ekki danska skattkerfið og þrátt fyrir tilraunir til að öðlast skilning þá kemur hann ekki. Fyrir mér lítur það ferli að greiða "réttan" skatt svona út:
1) Giska á heildarlaun mín yfir árið (helst giska of mikið).
2) Áætla frádráttarbæra liði (greiðslur í lífeyrissjóði, kostnað vegna keyrslu til og frá vinnu ef vinnustaðurinn er í meira en 25 km fjarlægð frá heimili og maður á bíl, vaxtagreiðslur, vinnustaðanettengingu, athuga hvort vinnusími telst sem plús eða mínus, athuga ef strætókortið telst sem plús eða mínus, osfrv osfrv).
2) Athuga í hvaða skattþrepi tekjurnar eru þá í.
3) Reikna út tekjuskattinn sem passar við þær tekjur.
4) Reikna út leyfilegan frádrátt af skattgreiðslum til að tekjurnar lendi í réttu skattþrepi.
5) Lækka þann frádrátt örlítið ef ske kynni að einhverjar aukatekjur detti inn sem auki heildarskattgreiðsluna yfir árið örlítið.
6) Vona það besta.
Margir Danir leysa þetta mál með því að undiráætla stórlega undir lið 5) og vona að þeir fái í staðinn stóra endurgreiðslu í apríl-mánuðinum á eftir. Ég virðist vera á góðu hliðinni núna því ég fékk endurgreitt, en hver veit hvað gerist á næsta ári!
Íslenska skattkerfið er betra að því leyti að frádráttarhlutinn dregst af launum, ekki af skattgreiðslum. Mér finnst a.m.k. auðveldara að skilja það. Auk þess er þrepakerfið alveg að gera út af við mig þótt mig gruni nú að ég sé varla að fara niður um skattþrep (nema ég hafi misskilið frádráttarhlutann eitthvað sem gerir að ég er að misreikna mig um skattþrep af heildarskattskyldum tekjum, en það þýðir þá ofgreiðsla en ekki vangreiðsla og ég fæ engan aukareikning).
Lausnin hjá mér er sú að vona það besta á hverju ári. Í besta falli er ég að borga aðeins og mikið í skatt en veit a.m.k. að það sem ég fæ útborgað er eitthvað sem ég fæ af mikilli náð yfirvalda að halda eftir. Verra er að fá himinháan reikning vegna vangoldinna skatta. Ég fæ nóg af svoleiðis annars staðar frá.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment