Friday, April 06, 2007

Föstudagurinn langi er ekkert svo langur

Þessi föstudagurinn langi er ekkert svo langur. Ég er alveg gjörsamlega útsofinn - svo mikið að ég gat hreinlega ekki sofið lengur en 6 tíma í nótt/morgun. Sólin skín en örlítill sjoppuleiðangur leiddi í ljós að það er ekkert voðalega heitt úti. Aðeins of kalt til að vera á stuttermabol í skugganum. Ég hangi því inni, dæli pistlum í allar áttir (dæmi), sötra hina ýmsu vökva til skiptis (kaffi, kók, bjór, vatn) og reyni að ímynda mér hverjir væru til í eitthvað sötur í kvöld ef ég kæmist í þannig skap sjálfur.

Ætli vinstrimenn sem boða "fjölmenningarsamfélag" séu líka þeir einstaklingar sem vilja afnema lögbundna frídagaskyldu á kristnum hátíðardögum?

Ég er að íhuga að ganga í Sjálfstæðisflokkinn (aftur). Er samt á báðum áttum með það. Flokkurinn er að breytast í morkinn miðjuflokk og ungliðahreyfingin er ekki að veita neitt sérstaklega beitt aðhald. Hins vegar hefur margt gott gerst í stjórnartíð flokksins á seinustu árum - margt sem sést ekki endilega í dægurmálaumræðunni. Gallinn við að ganga í Flokkinn er samt sá að þá legg ég óumflýjanlega á mig þá kvöð að verja verk hans, sama hver þau eru. Þá er betra að standa svolítið utan við stjórnmálaflokkastarfsemi og gelta frá hliðarlínunni.

Talandi um stjórnmál: "Í grein sinni stingur Björgvin upp á að kennslubækur fyrir nemendur í framhaldsskólum verði borgaðar af ríkinu. Hann orðar þetta reyndar svo að þær verði ókeypis en ég hef nú ekki mikla trú á að höfundar og útgefendur séu til í að gefa framleiðslu sína.". Atli Harðarson er sniðugur.

Påskefrokost hjá Óla á sunnudaginn er byrjaður að kitla mínar jólabarnstaugar. Fjörið hefst kl 14 og óhætt að fullyrða að ölvun verði orðin þónokkur þegar líður á daginn. Getur einhver, sem þekkir til minna gríðarlegu takmarkana og óþolinmæði í eldhúsinu, gefið mér hugmynd um hvaða matrétt ég get tekið með mér? Ég var að hugsa um að kaupa nokkrar pizzur á laugardaginn, láta þær standa í ísskápnum yfir nótt og láta kaldar pizzusneiðar vera mitt framlag. Er það alveg hræðileg hugmynd? Mér sem finnst köld pizza vera svo gott snarl!

Gauti veit það kannski ekki sjálfur en hann er fyrirmynd hins vinstri-græna nútímamanns, og ég í rauninni líka! Því til staðfestingar get ég nefnt að um seinustu helgi fór ég ekki í sturtu frá fimmtudagsmorgni til mánudagsmorguns. Umhverfisvænni gerist maður varla!

Skattmann frá skaupinu 1989 gæti verið á leið á netið bráðum. Ég bíð spenntur! Óþolinmóður og spenntur!

Einhver seinkun hefur orðið á drekka-páskabjór-úti planinu en þó bara seinkun en ekki aflýsing. Það er mikilvægast.

1 comment:

Gauti said...

Ánægulegt að vera orðinn fyrirmynd stjórmálahugtaks:)