Thursday, April 19, 2007

Helgi, já takk!

Ólíkt því sem gengur á gerist á mörgum fimmtudögum þá finnst mér svo sannarlega eins og það sé fimmtudagur núna. Helgin hefur verið vægast sagt sveiflukennd í svefni og vinnudagarnir snúnir eftir því. Ég stefni fastlega að því að taka stutta vinnuviku eftir helgi til að fagna því að þreytuþolsreikningum á 15" olíuflutningsleiðslu og hönnunarskýrslu 8" framleiðsluröri er nú að heita lokið, og þar með lokast vonandi og væntanlega stór kafli í vinnunni að miklu leyti.

Hverjum datt í hug að byrja kalla álver "álbræðslur"? Ef eitthvað þá eru álver álsteypustöðvar og þar fer ekki fram bræðsla á áli heldur einangrun þess (úr fljótandi báxítlausn) og hersla! Kannski menn læknist af notkun þessa orðskrípis þegar umræðuefnið er orðið þreytt og menn byrja aftur að njóta milljarðanna sem sala á ódýrri raforku aflar í gjaldeyri.

Svo virðist sem Svenni sé ekki eina véfréttin meðal Íslendinga í Danmörku (en hann var einmitt mjög nærri því að giska á úrslit boltaleiksins í gærkvöldi). Nú segir nýjasta skoðanakönnunin vegna komandi Alþingiskosninga nokkurn veginn það sama og ég um daginn. Spurning um að taka skrefið til fulls og segja hvernig úrslitin verða á endanum? Ég þori því varla af ótta við að þau verði vinstrinu í hag, Íslandi í óhag, en hvur veit.

Á morgun er mikið vinnudjamm planað, en þó bara óformlegt og á eigin reikning. Ég hlakka mikið til enda er um að ræða afskaplega hressan hóp. Aðeins of hress stundum en þá eru til heyrnatól og hátt stillt þungarokk til að bjarga því sem bjargað verður á vinnudegi þegar Danir eru í góðu skapi og langar að tala mikið og lengi um ekkert og alls ekkert. Dani eftir einn bjór er alveg ótrúlega ólíkur bjórlausum Dana. Varla sambærileg mannesakja sem verður til þegar tappinn rýkur af flöskunni. Ætli það sé ástæðan fyrir meintri hamingju Dana?

2 comments:

Anonymous said...

Helgi, nei takk!!!!!

-Soffía

Anonymous said...

Oooooooo þú á vinnudjammi og mig vantar svo að tala við þig á msn. Vona þó að þú sért að skemmta þér vel - efast ekki um annað.