Monday, April 30, 2007

Prímadonnudagur í dag

Sumir mánudagar eru bara dæmdir til dauða fyrirfram. Í fyrsta lagi að sofa yfir sig (þökk sé ónefndri manneskju sem hélt mér masandi um pólitík langt fram á nótt!), og svo að finna hugsanlega alveg gríðarlega alvarlega villu í skýrslu sem ég var að lesa yfir í dag en hafa ekki andlegt þrek til að fylgja því eftir alla leið (fresta því til morguns enda ekki þess eðlis að himinn og jörð farist alveg strax), og loks að vera gerður að skipuleggjanda út-að-borða-dæmis hjá hópnum mínum í vinnunni. Sem sagt: Kom engu í verk, og verkefnunum fjölgaði bara. Endaði vinnudaginn eftir litla 6 tíma og fékk mér kebab.

Ég sé þetta kannski í of dimmu ljósi. Villan fannst jú (ef villa reynist) og það er gott. Skipulagningarhlutverk er ábyrgðarstaða sem ber vott um traust og það allt. Að sofa út er bara önnur leið til að orða "sofa vel og lengi". Já, ég sé hlutina í of dimmu ljósi (er til dimmt ljós?). Allt er gott. Meira að segja kebabinn var í lagi.

Á morgun halda danskir verka- og námsmenn upp á 1. maí á meðan skrifstofan er þéttsetin verkfræðingum eins og á venjulegum þriðjudegi. Einhver í vinnunni sagðist ætla taka sér frí og drekka bjór með verkafólkinu og fékk í staðinn "ha? er það?" og mikla undrun fólksins í kringum sig. Skrýtið að vita til þess að Íslendingar í blússandi hagsveiflu taki 1. maí hátíðlegar en Daninn í sósíaldemókratísku ríkisbáknslandi.

Á föstudaginn er "stóri bænadagurinn" í Danmörku (sem stendur ekki fyrir neitt en einhver saga liggur á bak við hann). Kvöldið áður er einmitt út-að-borða-dæmið með vinnufélögunum, og djammplön byrjuð að myndast meðal þeirra þyrstustu í hópnum. Sjáum hvað setur með það.

Nú hafa hvorki fleiri né færri en tveir aðilar bent mér á þessa mynd af þjóðþekktum Íslendingi á förnum vegi. Er Ísland alltaf að minnka?

Fréttablaðið er ekkert að flýta sér að birta það sem ég sendi á það. Ég freistaðist til að skrifa örlítið lengri pistil en síðast í von um að skauta ekki alveg jafngrimmt yfir helstu króka og kima umræðunnar, en það er áhættusamt í blaðagreinaflóði kosningabaráttu upp á birtingu að ræða. Ég vona bara það besta.

Nokkrir auka þúsundkallar birtust á launareikningi mínum um þessi mánaðarmót (einhver yfirvinna og einhver orlofspeningur sem ég vissi ekki að ég ætti að fá) og ég get fullyrt mjög afgerandi að 50% af hverri aukakrónu hverfur jafnharðan í skatt. Why bother then, segi ég bara. Neyðist samt til að skrifa á mig yfirvinnutíma aftur því flextime-reikningurinn minn þolir ekki að hafa meira en 38 tíma á sér við mánaðarmót. Ætli skatturinn refsi mér á næsta ári fyrir allt þetta ótilkynnta fjárstreymi?

Alltaf gleymi ég að sinna mikilvægasta verkefninu á verkefnalistanum mínum: Að velja beibur í Beib dagsins á Dauðaspaðanum. Better get to it!

2 comments:

Anonymous said...

"Skattheimta á Íslandi hefur skv. staðtölum OECD aukizt úr 38% af landsframleiðslu 1990 í 48% 2006. Á sama tíma hefur skattheimta á evrusvæðinu aukizt úr 43% af landsframleiðslu í 45%. Skattbyrðin hér heima er komin upp fyrir Evrópumeðallag. Hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt, ef vinstri stjórn hefði aukið skattbyrðina um 10% af landsframleiðslu?"

Geir said...

Um það er ekki deilt að þrátt fyrir lækkandi skatta og afnám skatta þá hefur almenn tekjuaukning langt umfram persónuafslátt og aukin neysla á hátt sköttuðum varningi valdið því að skattbyrðin hefur vaxið. Lausnin er auðvitað sú að lækka skatta enn hraðar á enn fleiri sviðum. Vinstrimenn auka skattbyrðina með öðrum hætti, og öllu verri sem hefði verðskuldað allt öðru vísi gagnrýni.